Jólin eru með óvenjulegu sniði í ár hjá séra Hjálmari Jónssyni sóknarpresti Dómkirkjunnar. Hann er í veikindaleyfi til 1. mars og mun því ekki messa um hátíðarnar nú í fyrsta sinn í lengri tíma.
„Það er sérstök tilfinning að vera ekki að messa þetta árið. Ég vígðist til prests árið 1976 og síðan þá hafa jólin alltaf verið mjög annasamur tími ef frá eru talin þau sex ár sem ég starfaði sem alþingismaður en þá fann ég fyrir þessum sömu fráhvarfseinkennum,“ segir Hjálmar.
„Það var þó ósköp ljúft að setjast inn í kirkjuna í gærkvöldi og taka þátt í helgihaldinu með sínum söfnuði sem maður hefur verið að þjóna og mun þjóna áfram að veikindaleyfinu loknu.“
Séra Hjálmar fékk blóðtappa í annan fótinn og þurfti að fara í aðgerð sem heppnaðist vel.
„Þetta kom til út af gömlum meiðslum og það er varla segjandi frá því að virðulegur dómkirkjuprestur hafi fyrir fjórum árum verið að leika sér á fjórhjóli. Við feðgarnir vorum að keyra upp hjá Kaldárseli og hjólið mitt fór út af í beygju og hjólið lenti á fætinum mínum. Fóturinn bólgnaði upp og síðan þá hef ég glímt við verki í fætinum. Síðan hefur einhver æðakölkun átt sér stað og eftir að hafa leitað ráða hjá læknum þá kom í ljós þessi tappi. Auðvitað er blóðtappi hættulegur en hann hefði getað farið í heilann eða lungu en sem betur fer kom það ekki til og er það okkar góða læknisliði að þakka. Maður er svo þakklátur fyrir að hafa sloppið vel.“
Séra Hjálmar segir læknana hafa staðið sig mjög vel. „Ég verð jafngóður ef ekki betri eftir þessa góðu meðhöndlun okkar frábæra læknaliðs.“
Séra Hjálmar segir rólegheitin góða æfingu fyrir efri árin. „Þetta er ósköp rólegt. Fjölskyldan hefur það fyrir sið að hittast eftir messu á jóladag og svo er skírn barnabarns á laugardaginn en ég hef það nú alveg af að skíra,“ segir Hjálmar og hlær. „Þá eru ýmis verkefni sem bíða mín en það eru til dæmis tveir sálmar sem mig langar til þess að þýða. Nú nýtur maður hátíðarinnar og óskar öllum gleðilegra jóla.“
Séra Hjálmar Jónsson verður í veikindaleyfi til 1. mars 2014. Í leyfi hans þjónar séra Karl Sigurbjörnsson biskup.