Ísland fær loks að vera Ísland

Íslensk fjöll í baksýn og Ben Stiller á hlaupum með …
Íslensk fjöll í baksýn og Ben Stiller á hlaupum með hjólabretti. Úr kvikmyndinni Secret Life Of Walter Mitty

Íslenskt landslag er nokkuð algengt í Hollywood-kvikmyndum en án þess þó að áhorfendur hafi hugmynd um að myndirnar hafi verið teknar á Íslandi. Oftast eiga myndirnar að gerast í fjarlægri framtíð eða í goðsagnakenndum heimi en í nýjustu mynd Bens Stiller, The Secret Life of Walter Mitty, sem frumsýnd er í Bretlandi í dag, er Ísland, þ.e. landið sjálft, í aðalhlutverki.

Í ítarlegri grein í breska dagblaðinu The Guardian í dag er fjallað um myndina og farið yfir þá staði sem þar koma fyrir. 

„Í þetta sinn eiga staðirnir ekki að vera aðrar plánetur - í þetta sinn snýst þetta allt um Ísland,“ segir m.a. í greininni. Þar segir enn fremur að í fyrsta sinn sé Ísland raunverulegur hluti af söguþræði stórrar Hollywood-myndar.

„Tökur á myndinni fóru fram um allt landið og sýna mikinn fjölbreytileika landslagsins,“ segir í greininni. Fram kemur að Seyðisfjörður með hin sérstæðu fjöll Bjólf og Strandartind séu meðal tökustaða sem og Grundarfjörður en þangað þarf Mitty, sem Ben Stiller leikur, að hjóla í leit að vini sínum, Sean O'Connel sem Sean Penn leikur.

Í grein Guardian er m.a. mynd af Kirkjufelli og sagt að það sé aðeins í um hálftíma akstursfjarlægð frá Stykkishólmi, sem einnig komi fram í myndinni.

Þá segir að Garður á Reykjanesi komi við sögu í hápunkti myndarinnar. Myndin er ennfremur tekin á Höfn í Hornafirði sem er þar í hlutverki flugvallar á Grænlandi.

The Secret Life of Walter Mitty verður frumsýnd á Íslandi í janúar.

Sjá grein Guardian í heild hér.

Í stilkunni sem sjá má hér að neðan er lag íslensku hljómsveitarinnar Of Monsters and Men, Dirty Paws, leikið undir. 

The Secret Life of Walter Mitty er tekin á Íslandi …
The Secret Life of Walter Mitty er tekin á Íslandi - og á að gerast á Íslandi.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert