Snjóflóð féll í Ljósavatnsskarði

Snjóflóð féll á veginn um Ljósavatnsskarð á milli Akureyrar og Húsavíkur í morgun og er hann nú lokaður. Enginn var á ferð um veginn er flóðið féll. Páll Kristjánsson, verkstjóri Vegagerðarinnar, segir óvenjulegt að flóð sem falli á þessu svæði nái niður á veginn. Hann segir flóðið stórt og að verið sé að meta hvenær vegurinn verði ruddur.

Þó heldur hafi dregið úr mesta vindinum frá í gær verður áfram fremur hvasst í dag og þá með skafrenningi norðan- og norðaustantil, einkum á fjallvegunum, samkvæmt upplýsingum veðurfræðings Vegagerðarinnar. Spáð er snjókomu eða þéttum éljagangi í dag á Vestfjörðum og Norðurlandi, austur um á Hérað.

Vegna snjóflóðahættu eru vegir um Ólafsfjarðarmúla og Súðavíkurhlíð lokaðir. Einnig er hluti Skutulsfjarðarbrautar á Ísafirði lokaður. 

Þá er vegurinn um Þverárfjall einnig lokaður þar sem vagn af flutningabíl lokar veginum. Flestir fjallvegir á Vestfjörðum og Austfjörðum eru ófærir. Flateyrarvegur er ófær en gæta þarf sérstakrar varúðar þar vegna snjóflóðahættu, samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar.

Það er hálka á Sandskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum, hálka er annars víðast hvar á Suðurlandi en þó er flughált í uppsveitum.

Hálka eða snjóþekja er á flestum leiðum á Vesturlandi en þó er ófært á Útnesvegi. Á Vatnaleið er þæfingsfærð en unnið er að hreinsun.

Á Vestfjörðum er ófært um flesta fjallvegi, þungfært er þó á Mikladal og Hálfdán ásamt skafrenningi.

Hálka, snjóþekja eða þæfingur er nokkuð víða á Norðurlandi, ófært er á Víkurskarði og lokað er um Þverárfjall.

Ófært er um flesta fjallvegi á Austurlandi eins og er en unnið er að hreinsun á Fjarðarheiði og Oddskarði. Þæfingsfærð er á Fagradal og Jökuldal.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert