Í morgun þegar World Class í Laugum var opnað beið fólk við innganginn og ætlaði greinilega að byrja snemma í að ná jólasteikinni af sér. Fullt var í alla hóptíma dagsins og æfingaraðstaðan er svo gott sem fullnýtt. Þetta segir Ingibjörg Thelma Leópoldsdóttir, starfsmaður í Laugum, í samtali við mbl.is.
Ingibjörg segir að þegar opnað hafi verið klukkan 8 í morgun hafi fólk beðið við hurðina og síðan þá hafi örtröðin lítið stoppað. Það sé því ljóst að margir Íslendingar séu ákafir í að vinna á móti þeirri þróun sem hefur verið síðustu daga með ríflegum jólaveitingum.
Ingibjörg segir að klukkan 10.15 hafi verið fyrsti spinningtími dagsins. Hefðin er að opna fyrir skráningu 30 mínútum fyrir tíma og í morgun hafi fólk jafnvel verið búið að bíða upp undir klukkustund til að skrá sig í tímann. Sama hafi verið upp á teningnum fyrir tímann sem byrjaði klukkan 11. „Fólk er spennt að hreyfa sig og ná af sér jólasteikinni,“ segir Ingibjörg, en stöðin er opin til klukkan sex í kvöld.