30 sjómönnum sagt upp

30 manns í áhöfnum togarans Örvar SK-2 missa vinnuna.
30 manns í áhöfnum togarans Örvar SK-2 missa vinnuna. mbl.is/Helgi Bjarnason

Frystitogarinn Örvar SK-2 verður seldur úr landi. Togarinn er einn af þremur sem gerður er út af FISK Seafood ehf. á Sauðárkróki. 17 manns eru í áhöfn og að teknu tilliti til vaktaskiptakerfis er alls 30 sagt upp.

Fram kemur á vef FISK Seafood að viðunandi kauptilboð hafi borist í Örvar en frágangur samninga standi nú yfir. Stefnt er að því að skipið verði afhent nýjum eigendum í febrúarmánuði 2014. Óhjákvæmilegt sé annað en að sölunni fylgi uppsagnir sjómanna, en uppsagnarfresturinn er frá 1 og upp í 6 mánuði.

Stefna FISK er að draga úr vægi frystingar og vinnslu úti á sjó, en efla í staðinn vinnslu í landi. Þetta býður að sögn fyrirtækisins upp á á fjölbreyttari framleiðslu og betri nýtingu alls hráefnis. Undirbúningur að þessari breytingu er þegar hafinn m.a. með byggingu þurrkverksmiðju á Sauðárkróki.

Mannaráðningar til rannsóknarstarfa

FISK á líka dótturfyrirtæki, sem sérhæfir sig í rannsóknum og þróun á eftirliti og eflingu gæða á lokaafurðum, sem og stöðlun framleiðslunnar. Þrír starfsmenn hafa verið ráðnir til þessa rannsóknar- og þróunarfyrirtækis á þessu ári, sem allir hafa mismunandi bakgrunn og menntun.

„Slík stefnu-og áherslubreyting í rekstri FISK-Seafood ehf. kallar á miklar fjárfestingar og endurnýjun framleiðslu tækja til lands og sjávar. Áhersla á rannsóknir og þróun í fyrirtækinu  útheimtir þolinmæði og langtímahugsun og að sjálfsögðu mikið fjármagn bæði hvað varðar tækjabúnað og þjálfun og menntun starfsfólks,“ segir í fréttatilkynningu frá FISK.

Mikil tækifæri í þróun sjávarafurða

Fyrirtækið telur að mikil tækifæri séu fyrir hendi í þróun og vinnslu sjávarafurða. Mikill styrkur til framtíðar sé í því falinn að hafa aðgang að svo kölluðu hliðarhráefni, til aukinnar verðmætasköpunar.

„Vaxandi skilningur almennings og stjórnvalda er á mikilvægi þess að fyrirtæki eins og FISK-Seafood ehf. fái að vaxa og dafna á eðlilegan hátt, ekki síst fyrir hinar dreifðu byggðir. Þó svo að starfsmönnum FISK geti fækkað tímabundið við slíka áherslubreytingu er ljóst að til lengdar muni þeim fjölga með frekari úrvinnslu og bættri nýtingu þess hráefnis sem að landi kemur. Síðast en ekki síst mun fjölbreytni starfa hjá fyrirtækinu aukast til mikilla muna frá því sem nú er.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert