Sameiginlegur áhugi á flygildum og björgunarsveitarstarfi kveikti þá hugmynd hjá tveimur gömlum félögum sumarið 2011 að nota mætti flygildi til að taka loftmyndir sem björgunarsveitir gætu nýtt við leit að týndu fólki.
Myndirnar yrðu settar á netið til að almenningur gæti aðstoðað við leitina. Leitin að sænska ferðamanninum Daniel Markus Hoij, sem fannst látinn á Sólheimajökli þá um haustið, varð enn til að auka áhuga þeirra á að kanna hvort hugmyndin væri raunhæf, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Þeir fengu fleiri til liðs við sig og úr þessari hugmynd varð til sprotafyrirtækið SAReye sem nú hefur bæði þróað hugbúnað til að greina loftljósmyndir sem teknar eru úr litlum flygildum eða drónum með tilliti til þess hvort maður gæti leynst á myndum og nýtt aðgerðastjórnunarkerfi sem Landsbjörg hefur tekið í notkun.