Í dag eru nákvæmlega 30 ár frá því að sjúkrahúsið Vogur var opnað, að Stórhöfða 45 í Reykjavík. Í tilefni af því var í dag haldin afmælisveisla í húsnæði SÁÁ í Efstaleiti í dag þar sem forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson var á meðal gesta.
„Fyrir þrjátíu árum gerist það að sjúklingahópur ákveður að byggja spítala utan um sig, og aðra með sama sjúkdóminn. Með frjálsum framlögum og dugnaði upphafsmannanna tókst það,“ segir Rúnar Freyr Gíslason, samskiptafulltrúi SÁÁ. Talið er að um það bil 24 þúsund sjúklingar hafa komið við á Vogi í þrjátíu ára sögu spítalans. „Það er magnað að vita til þess að alla veganna helmingur þess fólks gengur um göturnar í dag, og hefur náð góðum bata frá þessum lífshættulega sjúkdómi,“ segir Rúnar og bætir við: „Í dag er horft til okkar öfundaraugum um allan heim, bæði vegna þekkingarinnar sem við búum yfir en líka vegna þess að hér er hægt að komast í meðferð fyrir lítinn, sem engan pening.“
Byggt var við spítalann fyrir um tíu árum og nú stendur aftur til að stækka hann. „Við ætlum að byggja nýja álmu sem verður sérstaklega fyrir veikustu sjúklingana. Söfnunin hefur staðið yfir í nokkrar vikur og gengur mjög vel. Fyrirtæki og einstaklingar hafa staðið sig frábærlega eins og alltaf þegar SÁÁ er annars vegar,“ segir Rúnar að lokum.