Makríldeilan hefur tekið verulegum breytingum frá því í sumar. Fram að því höfðu Evrópusambandið og Norðmenn staðið saman í deilunni gegn Íslendingum og Færeyingum. Deilan hefur staðið yfir undanfarin ár og snýst um það hvernig skipta eigi árlegum makrílkvóta í Norðaustur-Atlantshafi á milli strandríkjanna á svæðinu. Makrílstofninn hefur fært sig norðar en áður og aukið viðveru sína verulega bæði í íslensku og færeysku lögsögunni og nú síðast þeirri grænlensku. Evrópusambandið og Norðmenn vildu lengst af ekki taka mið af þessum breytingum við skiptingu makrílkvótans.
Þetta hefur hins vegar smám sama breyst að undanförnu og þá ekki síst eftir að Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) staðfesti síðastliðið haust að makrílstofninn væri að öllum líkindum miklu stærri en ráðið hefði áður gert ráð fyrir. Ráðlagði það í kjölfarið kvóta fyrir næsta ár sem nam meðaltali heildarveiði á makríl undanfarin þrjú ár. Með ráðleggingu ICES var endanlega staðfest að makrílveiðar í Norðaustur-Atlantshafi væru ekki ósjálfbærar eins og forystumenn Noregs, Evrópusambandsins og ríkja innan sambandsins höfðu ítrekað haldið fram og sakað Íslendinga og Færeyinga um að bera ábyrgð á.
Evrópusambandið hafði gengið svo langt að hóta Íslendingum og Færeyingum refsiaðgerðum á grundvelli löggjafar sem samþykkt var á vettvangi sambandsins haustið 2012. Löggjöfin heimilar Evrópusambandinu að grípa til slíkra aðgerða gegn ríkjum sem sem sambandið telur stunda ósjálfbærar veiðar á deilistofni sem það hefur hagsmuna að gæta gagnvart. Eftir að niðurstaða ICES lá fyrir hefur orðræða forystumanna innan Evrópusambandsins hins vegar breyst og lítið er minnst á mögulegar refsiaðgerðir enda forsendan fyrir þeim ekki lengur fyrir hendi. Engu að síður er ljóst að þær hafa ekki með öllu verið teknar af borðinu.
Fátt bendir til að samkomulag sé í sjónmáli
Fundað hefur verið ítrekað um makríldeiluna frá því í sumar. Ekki síst hefur verið um að ræða fundi á milli forystumanna strandríkjanna í sjávarútvegsmálum. Þannig hefur Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri, átt fundi með sjávarútvegsráðherrum Íslands, Noregs og Færeyja sitt í hvoru lagi og ráðherrarnir hafa að sama skapi fundað sín á milli. Sömuleiðis hafa eiginlegir samningafundir farið fram á milli samninganefnda strandríkjanna og er næst gert ráð fyrir að slíkur fundur fari fram 15. janúar næstkomandi þar sem freista á þess að ná lendingu í deilunni.
Hins vegar bendir fátt til þess að samkomulag sé í sjónmáli í makríldeilunni. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og íslensk stjórnvöld hafa frá því í sumar verið að færast nær í málinu og liggur fyrir óformlegt samkomulag á milli þeirra um að Íslendingar fái 11,9% af árlegum makrílkvóta. Hins vegar hafa Færeyingar hafnað sama tilboði og krefjast mun hærri hlutdeildar. Hinu megin eru Norðmenn sem telja 11,9% allt of hátt boð og undir það hafa írsk stjórnvöld tekið. Þá er óljóst hvort Damanaki hafi nægan stuðning í stofnunum Evrópusambandsins til þess að semja á þeim forsendum.
Ljóst er að tíminn hefur til þessa unnið með Íslendingum og Færeyingum í makríldeilunni. Evrópusambandið og Norðmenn hafa smám saman gefið eftir í deilunni. Framan af vildu þarlendir ráðamenn ekki viðurkenna Ísland sem strandríki þegar kom að makrílveiðum né að makríll væri að einhverju ráði í íslensku lögsögunni. Nú hafa Evrópusambandið og Norðmenn hins vegar viðurkennt að taka verði tillit til þess að makríllinn hafi færst í vaxandi mæli inn í færeysku og íslensku lögsöguna. Ásakanir um ósjálfbærar veiðar hafa sömuleiðis að mestu hætt eftir að niðurstaða ICES um stöðu makrílstofnsins lá fyrir í haust.
Takmarkaður tími til þess að ná samkomulagi
Stjórnvöld á Íslandi hafa frá upphafi lagt áherslu á mikilvægi þess að ná samkomulagi í makríldeilunni. Krafa þeirra var lengst af í kringum 16% hlutdeild í árlegum makrílkvóta en Íslendingar hafa hins vegar veitt mun meira en það. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur boðið 11,9% sem íslenskir ráðamenn hafa tekið vel í. Hins vegar er ljóst að samkomulag næst ekki nema öll strandríkin nái sama um það. Norðmenn telja það tilboð allt of hátt og óvíst er með stuðning við það innan sambandsins. Færeyingar vilji hins vegar sem fyrr að lágmarki um 15% hlutdeild.
Enn ber þannig mikið á milli í makríldeilunni og tíminn til þess að ná samkomulagi vegna næsta fiskveiðiárs styttist óðum. Íslensk stjórnvöld hafa venjulega gefið út árlegan makrílkvóta ekki löngu eftir að nýtt ár hefur gengið í garð og sama á við um hin strandríkin. Hvort samkomulag næst á fundinum 15. janúar á eftir að koma í ljós en sem fyrr segir bendir fátt til þess að sú verði niðurstaðan.