Björgunarsveitamenn í Árnessýslu og sjúkraflutningamenn frá Selfossi eru nú að bera konu sem slasaðist á göngu niður úr Ingólfsfjalli, samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörg.
Konan, sem var á vinsælli gönguleið í fjallinu, hrasaði í hálku og slasaðist á hné og hugsanlega víðar auk þess sem hún er köld. Búist er við að 1-2 tíma taki að bera konuna niður en hún er stödd um miðja vegu uppi í fjallinu fyrir ofan námurnar. Kalt er og hvasst í fjallinu og nokkur hálka.
Björgunarfélagið Eyvindur á Flúðum er einnig á ferðinni til aðstoðar sjúkraflutningum við Geysi þar sem maður fótbrotnaði fyrir skammri stundu.