Sjávarútvegsráðherra hefur ekki tekið ákvörðun vegna umsóknar bandarískra aðila sem vilja sleppa háhyrningnum Tilikum í hafið við Íslandsstrendur. Sjávarútvegsráðuneytinu barst fyrirspurn frá Tracy E.L. Poured hjá Qualia Inc. um miðjan ágúst á þessu ári. Háhyrningurinn dvelur nú í dýragarðinum Sea World og var afrit af fyrirspurninni sent þangað.
Meðal þeirra atriða sem þarf að kanna áður en ákvörðun verður tekin um málið er hugsanleg sjúkdómshætta. Þá verður meðal annars leitað álits hjá sérfræðingum og Hafrannsóknarstofnun vegna umsóknarinnar. Einnig hefur komið fram að litið verði til máls Keikós og annarra sambærilegra mála og reynslu af þeim þegar umsókn bandarísku aðilanna verður tekin fyrir.
Tilikum er sagður hafa verið veiddur við Íslandsstrendur, nánar tiltekið í Berufirði, árið 1983. Þá var hvalurinn tveggja ára gamall og er hann því 32 ára í dag. Tilikum hefur drepið þrjár manneskjur, tvo þjálfara og gest í dýragarði. Eftir þriðja drápið sýndi Tilikum ekki listir sínar í dýragarðinum SeaWorld í Orlando fyrr en í mars árið 2011.
Þjálfarar hans hafa ekki verið með honum í vatninu eftir síðasta drápið árið 2010 og er sérstakur búnaður notaður til að nudda hann í stað snertingar þjálfarans. Háhyrningurinn hefur getið af sér 21 afkvæmi og eru ellefu þeirra á lífi.
Frétt mbl.is: Munu líta til máls Keikós