Kynferðisbrotum á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði umtalsvert árið 2013 samanborið við árið 2012, eða um 66%. Fíkniefnabrotum fjölgaði um 10% milli ára en hegningarlagabrotum fækkaði engu að síður um fjögur prósent. Þetta kemur fram í bráðabirgðatölum lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir árið 2013.
Hafa ber þann fyrirvara á að tölur fyrir árið 2013 eiga enn eftir að breytast.
Fram kemur að á höfuðborgarsvæðinu fækkaði hegningarlagabrotum um 4% samanborið við árið 2012 og umferðarlagabrotum fækkaði um rúman fimmtung á sama á tímabili. Innbrotum fækkaði um 18% árið 2013 frá árinu á undan, eða hátt í 200 í brotum talið og hafa ekki verið færri á ári frá því að skráning brota hófst hjá lögreglunni. Kynferðisbrotum fjölgaði umtalsvert árið 2013 samanborið við árið 2012, eða um 66%.
Fíkniefnabrotum fjölgaði um 10% milli ára. Fjöldi mála sem varða innflutning tvöfaldaðist. Á sama tíma fækkaði málum tengdum framleiðslu fíkniefna annað árið í röð. Hafa ber í huga að þessar tölur ná einungis til þeirra mála sem lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu stofnar til. Auk þessara mála kemur fíkniefnadeild LRH að rannsókn fjölda annarra fíkniefnabrota sem koma upp víða um landið. Lögreglan og tollgæsla lagði hald á þrefalt meira magn amfetamíns árið 2013 en árið á undan eða um 30 kíló. Þá var lagt hald á um 30 kíló af maríjúana eða nokkru meira en árið á undan. Mun minna magn kókaíns var haldlagt en árið á undan og færri E-töflur voru haldlagðar á árinu.
Af umferðarlagabrotum má nefna að akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna heldur áfram að færast í aukana ár frá ári. Einnig fjölgaði ölvunarakstursbrotum á árinu. Hins vegar fjölgaði ökuhraðabrotum verulega. Hafa ber í huga að fjöldi þessara brota markast að einhverju leyti af frumkvæðisverkefnum lögreglu. Umferðarslysum fjölgaði um 6% frá árinu á undan. Telja þau 362 eða um eitt slys á dag að meðaltali.
Skýrsluna má nálgast hér.