Samfylking fari í naflaskoðun

Össur Skarphéðinsson.
Össur Skarphéðinsson. Rax / Ragnar Axelsson

„Flokkurinn þarf að skilja hvað fór úrskeiðis bæði undir lok kjörtímabilsins og í kosningabaráttunni – því hann varð sannarlega viðskila við kjósendur sína. Menn gera það ekki með því að plástra afhroðið með gleymsku tímans,“ segir Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingar, um stöðu síns flokks.

Ásamt því að kalla eftir endurskoðun innan Samfylkingarinnar harmar Össur í ítarlegu viðtali við mbl.is að síðasta ríkisstjórn skyldi ekki gera meira í þágu skuldugra heimila. Hann hafi lagt fram tillögur að 140 milljarða niðurfærslu lána.

Össur telur þannig að enginn einn þáttur hafi orðið stjórninni að „jafn digru fótakefli“ í síðustu kosningum og að hún skyldi ekki í kjölfar dómsins um Árna Páls-lögin ná niðurstöðu um aðgerðir í þágu heimila með verðtryggðar skuldir.

Hæstiréttur dæmdi gengistryggð lán ólögleg í júní 2010 og voru lögin kennd við núverandi formann Samfylkingarinnar samþykkt 22. desember sama ár. Fólu þau í sér að miða ætti við lægstu óverðtryggðu vexti Seðlabanka Íslands af lánunum. 

„Frá upphafi var einn ráðherra þeirrar skoðunar að það ætti að fara í almenna skuldaniðurfærslu. Ögmundur Jónasson tjáði það opinberlega og margoft í greinum. Eftir gengislánadóminn í febrúar 2012 var mjög almenn krafa um það innan míns flokks, þ.á.m.í þingflokki Samfylkingarinnar, að líkna yrði þeim hópi sem hafði stökkbreyttar verðtryggðar skuldir á sínum herðum.

Á þeim tíma hafði hópur þingmanna Samfylkingar undir forystu Helga Hjörvar - Skúli Helgason og Björgvin G. Sigurðsson voru í þeim hópi - lagt fram mótaðar hugmyndir. Helgi lýsti hugsuninni í þeim í þingræðu í umræðum eftir Árna Páls-lögin, og síðar í forsíðuviðtali við eitt dagblaðanna.

Helgi sótti fast að fá málið til sín í efnahags- og skattanefnd, og eftir ítarlega umræðu í þingflokknum var hann studdur af þorra þingmanna okkar. Það varð niðurstaða í þingflokknum að veita Helga forsjá um úrlausn málsins með því að láta hana í hendur efnahags- og skattanefnd þar sem hann var formaður og vinna í anda fyrrnefndra hugmynda. Það gekk svo til baka vegna andstöðu sem kom upp í báðum stjórnarflokkunum,“ segir Össur sem vill ekki nefna nein nöfn.

Ekki vilji hjá ríkisstjórninni

Össur lýsir framhaldinu svo.

„Það leið skammur tími þangað til kom fram að þungavigt beggja flokkanna í ríkisfjármálum óttaðist að ríkissjóður gæti ekki staðið undir kostnaðinum, þó hugmyndirnar væru langt frá ítrustu hugmyndum Framsóknar.

Málið var sett í annan farveg, sem ég hef áður opinberlega túlkað sem leið til að svæfa það. Þegar lengra vatt fram, þegar kom fram á þetta ár, voru ýmsir þeirrar skoðunar í Samfylkingunni að nýta ætti það svigrúm sem skapast myndi úr viðureign við kröfuhafa, til að færa niður skuldir. Það hlaut ekki nægan hljómgrunn í þingflokki Samfylkingarinnar og menn voru vantrúaðir á að það yrði yfirleitt hægt að skapa svigrúmið fræga.

Þetta var ítarlega rætt og textar lagðir fram um það í hópi forystumanna. Sjálfur sagði ég opinberlega í kosningabaráttunni sl. vor - og lýsti því einnig yfir í grein - að ég taldi að fara ætti niðurfærsluleið sem miðaðist fyrst og fremst við þá sem verst urðu úti, þá sem Helgi Hjörvar hafði gróflega skilgreint sem hópinn sem keypti fasteign á árunum 2004 til 2008.

Upphæðin sem ég nefndi að ætti að lækka skuldir um var svipuð og núverandi ríkisstjórn tók svo ákvörðun um, eða 140 milljarðar,“ segir Össur sem kvaðst vegna efasemda um að svigrúmið yrði hægt að sækja hafa lagt til í greininni að fjármagnið yrði sótt í afnám skattaundanþágu á fjármálafyrirtæki í slitameðferð og með skatti á arð bankanna.

„Það hljómar kunnuglega í dag,“ sagði Össur.

Fjármagnið kæmi í gegnum bankaskatta 

- Hvað voru margir í þingflokki Samfylkingar á þessari skoðun fyrir kosningarnar sl. vor?

„Þeir voru þó nokkrir, fyrir utan mig voru það t.d. Kristján L. Möller, Björgvin G. Sigurðsson, og Helgi Hjörvar sem vildu renna þessa slóð. Menn höfðu efasemdir um að hægt væri að framkallað svigrúmið margumtalaða gagnvart samningum við kröfuhafana nægilega fljótt til að nýta það í þessu skyni, og voru svipaðrar skoðunar og núverandi fjármálaráðherra um að tækist það að lokum, ætti að nýta það til að lækka skuldir ríkisins.

Ég setti þá fram tillögu um það í fyrrnefndri grein að sækja fjármagn til skuldalækkana til kröfuhafa með öðrum hætti, þ.e.a.s. með því að afnema undanþáguna sem fjármálafyrirtæki í slitameðferð höfðu frá bankaskatti, og hækka hann, auk þess að skattleggja ofurhagnað bankanna, sem hafði verið gríðarmikill árin frá hruni. Það reyndist einfaldlega ekki hljómgrunnur fyrir því að þetta yrði að oddamáli í kosningabaráttunni.“  

Aðgerðir Framsóknar áttu að vera án takmarkana

- Skuldamálin voru eitt af stóru málum síðasta kjörtímabils. Eldar loguðu fyrir utan Alþingi við þingsetningu haustið 2010 og var ein megin krafan sú, að ráðist skyldi í aðgerðir fyrir skuldug heimili. Þetta var mál sem brann á mörgum. Af hverju telurðu að andstaða hafi verið uppi innan beggja flokka við þessar hugmyndir?

„Skuldalækkunartillögur, til dæmis Framsóknar, sem þá voru uppi, voru miklu hærri og án nokkurra takmarkana eða hámarks, einsog var reifað í hugmyndum þingmanna Samfylkingar uppúr gengislánadómnum, og síðar, og miklu víðfeðmari en núverandi ríkisstjórn afréð núna í haust. Sumir töldu líka að vandamálið væri ekki svona stórt, og varðaði frekar greiðslugetu en beinlínis skuldamagn. Í kjölfar þessa tóku menn ákvörðun um að nýta sérstakar vaxtabætur til að létta greiðslubyrðina, og 110-prósent leiðina til að lækka skuldirnar. Svo var búin til leið fyrir þá sem voru í verstum vanda með sértækri skuldaaðlögun.

Sú leið gaf góða raun fyrir þá sem komust þar í gegn, en reyndist seinfær og afkastalítil. Forysta ríkisstjórnarinnar lýsti svo ítrekað yfir að ekki yrði ráðist í frekari aðgerðir, og reynslan hefur sýnt að það voru mistök. Mestu skipti auðvitað að matið sem lagt var á kostnaðinn við almennar skuldaaðgerðir á þeim tíma var afar hátt, og menn töldu að ríkissjóður hefði ekki á þeim tíma ráðrúm fyrir þær. Svigrúmið fræga kom ekki í augsýn fyrr en með lagabreytingu sem færði bú föllnu bankanna undir gjaldeyrishöftin – sem núverandi stjórnarflokkar studdu ekki, svo ótrúlega sem það hljómar í dag.“  

Beðið eftir skjaldborginni

- Segjum sem svo að síðasta ríkisstjórn hefði farið í eða að minnsta kosti boðað þær aðgerðir sem þú sjálfur lagðir til í kosningabaráttunni sl. vor. Hefði það haft afgerandi áhrif á útkomu kosninganna?

„Ég tel líklegt að það hefði haft veruleg áhrif á úrslit kosninganna ef menn hefðu kynnt raunhæfar aðgerðir varðandi verðtryggðu skuldirnar í kjölfar gengislánadómsins í febrúar 2012. Loforðið um „skjaldborg heimilanna“ klingdi auðvitað og eftir að gengislánahópurinn hafði fengið úrlausn með dómi  upplifðu verðtryggðu skuldararnir mikla ósanngirni á sínum eigin herðum. Ekkert varð stjórnarflokkunum að jafn digru fótakefli og þetta einstaka atriði, þó aðrir þættir hafi vitaskuld spilað inn í.“

- Kann að vera að Evrópumálin séu ekki fallin til vinsælda og að það eigi sinn þátt í að flokkurinn mælist ekki með meira fylgi?

„Væri fullyrðingin í spurningunni rétt hefði Samfylkingin rokið upp í kjölfar þess að stuðningur bæði við framhald aðildarviðræðna og aðildina sjálfa hefur snöggtum aukist upp á síðkastið. Það hefur því miður ekki gerst. Staðreyndin er líka sú að kosningarnar snérust um allt aðra hluti en Evrópumálin – þær snérust um loforð Framsóknar um að lækka höfuðstól skulda landsmanna um 300 milljarða. Allir vita hvernig það fór.“

Samfylkingin viðskila við kjósendur sína

- Nú þykir ágætt hjá VG að mælast með 14% fylgi. Sambærilegir flokkar á Norðurlöndum mælast ekki mikið sterkari. Í þinni formannstíð náði Samfylkingin upp undir 32% en fylgi flokksins hefur hins vegar mælst lágt á árinu og langt undir því markmiði frá síðasta áratug, að ná jafnstöðu við Sjálfstæðisflokkinn. Hvað mun það taka Samfylkinguna langan tíma að ná fylginu upp, þó ekki væri nema í 20%?

„Við höfum þegar séð glitta í 20% í stöku könnun. Það er hins vegar óhemju verk að vinna upp hreyfingu sem lendir í viðlíka hamförum og kosningarnar voru Samfylkingunni. Það fer til dæmis eftir því hvernig flokkurinn vinnur úr ósigrinum.

Hingað til hefur hann bara beðið eftir því að tíminn líði, og nægileg fjarlægð verði frá kosningunum til að hann geti gleymt úrslitunum. Flokkurinn þarf að skilja hvað fór úrskeiðis bæði undir lok kjörtímabilsins og í kosningabaráttunni – því hann varð sannarlega viðskila við kjósendur sína. Menn gera það ekki með því að plástra afhroðið með gleymsku tímans. Við höfum varla þorað að nálgast orsakir kosningaósigursins með töngum. Ég var á sínum tíma með flokk í höndunum sem lá langtímum saman í 14-16%, fór niður í 11% í svörtustu könnuninni, og við gerbreyttum taktík eftir ráðslag og ráðgjöf vísra manna.

Við drógum upp sjókort af leið Íslands inn í framtíðina og töluðum ekki um neitt annað. Þetta gerbreytti okkar stöðu og gerði okkur að 30% flokki í tvennum kosningum. Á okkar tímum, þegar fólk vill sátt og frið í samfélaginu eftir róstutíma er hugsanlega meiri eftirspurn eftir hugmyndum og málefnum, og fólki sem hefur sannfæringu, en burtreiðum. En hvað veit ég.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka