„Um áramót þurfum við að gera ráð fyrir tíma til að sinna dýrunum okkar,“ segir Sif Traustadóttir, dýralæknir og dýraatferlisfræðingur. Hún segir að sumir hundar séu helteknir hræðslu við sprengingar og þeir leiti vanalega til eigenda sinna þegar þeir eru hræddir. Þá sé mikilvægt að eigendur ýti ekki undir hræðsluna með látbragði sínu, en það ýtir undir hræðsluna að vorkenna hundinum.
Í sumum tilfellum er hræðslan svo ofsaleg að dýrið getur farið sér að voða. „Ef hundur sýnir merki um hræðslu þegar byrjað er að sprengja flugelda í desember þarf eigandinn að halda ró og sýna að engin hætta sé á ferðum með því að látast fremur vera glaður og ánægður með sprengingarnar.“
Þá segir Sif að mikilvægt sé að hundurinn - eða kötturinn - geti leitað skjóls heima. „Algengt er að dýrin vilji vera inni í herbergi fyrir miðju hússins, eða þar sem einhver nákominn dýrinu sefur. Gott er að útbúa opið bæli með yfirbreiðslu til að leita skjóls í. Alls ekki draga dýrið fram ef það hefur fundið sér öruggan stað, jafnvel þótt þú hafir ekki sömu skoðun og það á því hvað teljist góður felustaður.“
Þá sé best að hafa ljósið slökkt hjá dýrinu, ef hægt er að draga fyrir alla glugga, en annars kveikt. Gott sé að hafa útvarp eða rólega tónlist í gangi.