Stjórn Ísafoldar, félags ungs fólks gegn ESB, hvetur ríkisstjórnina til þess að leggja fram og samþykkja þingsályktunartillögu þess efnis að aðildarumsókn Íslands að ESB verði dregin til baka strax á nýju ári. Kannanir síðan 2010 hafa sýnt andstöðu landsmanna við ESB aðild og niðurstaða alþingiskosninga 2013 undirstrika þá skýru afstöðu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu.
„Þá vill félagið minna á loforð ríkisstjórnarinnar um að ekki verði sótt að nýju um aðild nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Ísafold félag ungs fólks gegn ESB aðild óskar landsmönnum gleðilegrar hátíðar og farsældar á nýju ári og þakkar veittan stuðning á því liðnu,“ segir í tilkynningunni.
Aðalfundur Ísafoldar var haldinn á dögunum. Halldóra Hjaltadóttir stjórnmálafræðinemi var endurkjörin formaður félagsins, segir í tilkynningu.