Tilefni til bjartsýni

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Ómar Óskarsson

„Árið 2013 var líklega betra en margir, jafnvel flestir, landsmenn höfðu þorað að vona,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra í árlegu áramótaávarpi í kvöld. Hann sagði árið hafa verið viðburðarríkt og landsmenn hefðu haft ótal tilefni til að gleðjast og syrgja. Árið hefði gefið tilefni til að líta björtum augum fram á veginn og fagna nýju ári.

Minntist sigursins í Icesave-deilunni

Sigmundur minntist sigursins í Icesave-deilunni í upphafi árs. „Ljóst er að þjóðarbúið hefði ekki staðið undir þeim greiðslum en málstaður hinnar staðföstu smáþjóðar hafði betur að lokum og fyrir vikið blasti við að allt það sem ella hefði tapast mætti nýta til að reisa við íslenskt efnahagslíf og um leið samfélagið sem svo mikið hafði mætt á,“ sagði Sigmundur í ræðu sinni.

Sigmundur ræddi einnig rekstur ríkissjóðs og sagði hann að gert væri ráð fyrir viðsnúningi á næsta ári. Skuldasöfnun yrði stöðvuð en á sama tíma yrði meira fjármagni varið til heilbrigðismála og félagsmála. „Síðustu mánuði ársins urðum við vör við að sú aukna verðmætasköpun, sem er forsenda velferðar til framtíðar, væri hafin. Hagvöxtur varð mun meiri en reiknað hafði verið með og líka fjárfesting í verðmætasköpun framtíðarinnar,“ sagði Sigmundur.

Kjarasamningarnir marka aðeins upphaf

Þá ræddi hann einnig aðgerðirnar vegna skuldsettra heimilda í landinu. „Takist okkur að auka kaupmátt launa samhliða þessu verður staða heimilanna í landinu gjörbreytt til hins betra. Og nú sjáum við að ástæða er til að ætla að sú geti orðið raunin,“ sagði Sigmundur.

Forsætisráðherra sagði í ávarpi sínu að allir hlytu að vera meðvitaðir um að kjarasamningar, sem undirritaðir voru nú í lok ársins, feli ekki í sér að takmarki sé náð. Marki þeir aðeins upphaf en ekki endi.

„Á nýja árinu og árunum sem á eftir fylgja þurfum við að auka kaupmátt Íslendinga jafnt og þétt. Það ætlum við að gera í sameiningu. Sérstaklega þarf að bæta áþreifanlega kjör þeirra lægst launuðu en þau eru miklu lakari en við getum talið ásættanlegt á Íslandi. En það þarf líka að rétta hlut millitekjuhópanna sem hafa tekið á sig miklar byrðar á undanförnum árum,“ sagði Sigmundur í ávarpi sínu.

Ræddi afrek íþróttafólks

Sigmundur minntist einnig afreka hlaupakonunnar ungu, Anítu Hinriksdóttur ásamt afreka kvenna- og karlalandsliðanna í knattspyrnu. Hann sagði einnig að íslenskt kvikmyndagerðarfólk hefði víða vakið athygli með verkum sínum og íslensk náttúra léki aðalhlutaverk í mörgum af stærstu kvikmyndum okkar daga auk þess sem íslensk tónlist væri leikin um allan heim. 

Sigmundur við flutning ávarp síns í kvöld.
Sigmundur við flutning ávarp síns í kvöld. Skjáskot/RÚV
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka