Rúnar Georgsson, tónlistarmaður, lést hinn 30. desember 2013 á líknardeild LSH, sjötugur að aldri.
Rúnar fæddist 14. september 1943 í Reykjavík, sonur George Gomez og Guðlaugar Sveinsdóttur, hárgreiðslumeistara. Rúnar hóf barnungur að leika á hljóðfæri opinberlega, fyrst á munnhörpu sex ára gamall á skemmtun í Vestmannaeyjum. Síðan lærði hann á trompet, en skipti síðan fimmtán ára gamall yfir í saxófón og nam síðar einnig flautuleik.
Þekktastur var Rúnar sem einn fremsti saxófónleikari landsins og varð sem slíkur fyrirmynd margra íslenskra saxófónleikara af yngri kynslóðinni. Rúnar hóf feril sinn sem atvinnutónlistarmaður aðeins sextán ára gamall með hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar og spilaði síðan ýmsar tegundir tónlistar á ferli sínum. Hann lék með öllum helstu danshljómsveitum landsins á sínum tíma; KK sextettinum, hljómsveit Björns R. Einarssonar, Lúdó-sextettinum, Hauki Morthens, hljómsveit Ragnars Bjarnasonar, hljómsveit Þóris Baldurssonar, hljómsveit Pálma Gunnarssonar, Júdas o.fl. sveitum. Þá spilaði hann einnig með erlendum sveitum, s.s. sem einleikari í Danmarks Radio Big Band. En fyrst og fremst var Rúnar jazzleikari og kom fram sem slíkur á fjölda jazztónleika um ævina.
Rúnar lék inn á fjölda hljómplatna á ferli sínum, spilaði kvikmyndatónlist og kom fram í útvarps- og sjónvarpsþáttum. Þá gaf hann sjálfur út hljómplötuna „Til eru fræ“, ásamt Þóri Baldurssyni. Loks kenndi Rúnar saxófónleik við þrjá tónlistarskóla og jafnframt kenndi hann við jazzdeild FÍH á fyrstu árum deildarinnar.
Eftirlifandi sambýliskona Rúnars er Arndís Jóhannesdóttir, söðlasmiður og hönnuður. Rúnar lætur eftir sig þrjú börn og tvö stjúpbörn; þau Björgu, Ketil Niclas, Elfu Björku, Guðmund og Fróða. Barnabörnin eru fimm talsins og barnabarnabörnin tvö.