„Gengur gjörsamlega fram af mér“

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. mbl.is/Styrmir Kári

„Þessi framganga ykkar og rógburður hefur gengið gjörsamlega fram af mér, nú er mál að linni,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, í opnu bréfi til Aðalsteins Baldurssonar, formanns Framsýnar á Húsavík.

Aðalsteinn sendi Gylfa tóninn í pistli á heimasíðu félagsins. Gylfi svarar á heimasíðu ASÍ.

„Það er aftur á móti einkennandi fyrir málflutning þinn, ágæti Aðalsteinn, og ykkar félaganna að skilgreina ykkar afstöðu sem hina einu réttu – að þið hafið einkaleyfi á því að túlka vilja félagsmanna – og því hafi formenn þeirra félaga sem telja um 96% af félagsmönnum ASÍ sem ákváðu að fara þessa leið einfaldlega rangt fyrir sér. Að það séu þeir sem rjúfi samstöðuna um ykkar hugmyndir. Ef við erum þeirrar skoðunar að lýðræði eigi að ráða í okkar mikilvægu hreyfingu getur það ekki gengið að lítill minnihluti ráði niðurstöðunni. Að sama skapi er það algerlega skýr réttur þeirra félaga, sem ekki vilja fara eftir niðurstöðu meirihlutans að afturkalla umboðið og fara sínar eigin leiðir. Það að gera það ekki var ykkar niðurstaða og því er þessi  samningur jafn mikið á ykkar ábyrgð eins og þeirra sem hann undirrituðu.

Varðandi þau ummæli mín að ef kröfugerð SGS hefði mótað niðurstöðuna hefði almenna launahækkunin orðið umtalsvert meiri, þá er því til að svara að í kröfugerð SGS var gert ráð fyrir 7% almennri launahækkun auk 20.000 kr. hækkunar á launatöxtum og flokkatilfærslum. Sem betur fer er það ekki óþekkt innan raða SGS, að félagsmenn séu ,,yfirborgaðir‘‘ og því verður sambandið einnig að huga að almennri launahækkun. Það þarf ekki mikla þekkingu til að sjá að 7% almenn hækkun leiðir til þess að krónutöluhækkun þeirra sem eru með dagvinnulaun yfir 300 þús.kr. verður meiri en hækkun taxta og enn meiri meðal hæstu launa en ef viðkomandi hópar fá 2,8% hækkun. Því veit ég ekki hverju þú ert að mótmæla við ummæli mín? Varla ertu að afneita eigin kröfugerð?

Að lokum kvartar þú yfir því að ég ástundi þá iðju að ,,skvetta bensíni á eldinn‘‘. Ég held að nær væri að þú litir í eigin barm kæri félagi. Þessi framganga ykkar og rógburður hefur gengið gjörsamlega fram af mér, nú er mál að linni. Ég hef alla tíð lagt mikla áherslu á það í starfi mínu að tala við félaga mína og hlusta eftir því hvert okkar mikilvæga hreyfing vill fara. Ég hef reglulega farið um landið og fundað með stjórnum allra aðildarfélaga ASÍ. Í aðdraganda kosninganna í vor fórum  við í sérstaka fundarherferð um landið, þar sem hlustað var á grasrótina auk þess sem hugmyndir okkar í aðdraganda kjarasamninga voru ræddar. Þegar farið er yfir kröfugerðir aðildarsamtaka ASÍ kemur í ljós mikill samhljómur í hreyfingunni. Sá samhljómur á lítið skylt við þá leið sem þú og þínir félagar viljið  fara. Þess vegna er niðurstaðan sú sem nú liggur á borðinu. Meirihlutinn réð,“ segir Gylfi í lok bréfsins.

Aðalsteinn Baldursson, formaður Framsýnar, stéttarfélags þingeyinga
Aðalsteinn Baldursson, formaður Framsýnar, stéttarfélags þingeyinga
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert