Hengdi sig næstum í gardínusnúru

Perlusnúrur á gardínum geta reynst hættulegar slysagildrur.
Perlusnúrur á gardínum geta reynst hættulegar slysagildrur. mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Litlu munaði að illa færi þegar þriggja ára gamall drengur festist í gardínusnúru sem þrengdi að hálsi hans í gær. Móðir hans segist hafa margvarað börnin við þessari slysagildru heima hjá þeim, en óhappið varð í sumarbústað þar sem fjölskyldan varði áramótunum.

Drengurinn hékk í um 10-15 sekúndur í gardínunni áður en hann var losaður, en mörgum klukkustundum síðar var enn rautt far á hálsi hans, þar sem hún skarst inn í húðina. Honum varð þó ekki meint af og segir móðir hans, Katrín Rósa Eðvaldsdóttir, að líklega hafi henni verið meira brugðið.

„Stóri bróðir hans sagði svolítið seinna: „Núna vitum við hvað mamma er hrædd um okkur,“ af því að ég fór að hágráta. Honum fannst það svolítið merkilegt,“ segir Katrín.

Aukin slysatíðni hjá yngsta aldurshópnum

Flest slys á börnum verða í heimahúsum eða frístundum. Mest er hættan hjá börnum yngri en 5 ára, og hefur slysum fjölgað í þessum aldurshópi úr 67 á hver 1000 börn árið 2003 í 83 árið 2012.

Hægt er að fá ýmsan öryggisbúnað til að gera daglegt umhverfi barnvænna. T.d. er hægt að fá snúrustytti fyrir gardínubönd, til að hindra að börn vefji snúrunum utan um hálsinn. 

Katrín Rósa og fjölskylda voru hinsvegar stödd í ókunnugum sumarbústað um jólin þar sem slíku var ekki að heilsa.

„Ég var að vinna á leikskóla í fimm ár og þetta er eitt af því sem maður var alltaf að segja krökkunum. Einhverra hluta vegna spáðum við ekki í þetta í sumarbústaðnum eins og við gerum heima, en þarna var glugginn í þeirri hæð að krakkarnir voru alltaf uppi í gluggakistunni,“ segir Katrín.

Sakleysislegir hlutir verða slysagildrur

Þegar óhappið varð, á nýársdag, var fjölskyldan í óða önn að ganga frá og bera farangur út í bíl. „Við reyndum að hafa ofan af fyrir börnunum á meðan við kæmum okkur út, en vorum ekkert að sitja yfir þeim,“ segir Katrín.

Sonur hennar var uppi í gluggakistu og setti perlubandið, sem hékk niður úr rúllugardínu, um hálsinn. Svo gleymdi hann sér og ætlaði að stíga niður úr kistunni í sófann en þá herti bandið að hálsinum.

Sem betur fór var Katrín í stofunni þegar þetta gerðist og gat því brugðist skjótt við, en hún segir þetta þó áminningu um hve sakleysislegir hlutir í umhverfinu geti breyst hratt í slysagildrur.

„Maður slær engu upp í kæruleysi þó maður sé í sumarbústað. Það er alltaf heiti potturinn sem þarf að passa rosalega vel, og við pössuðum að allir væru með öryggisgleraugu út af sprengjunum á gamlárskvöld. En svo eru það þessir litlu hlutir sem maður þarf að muna að fylgjast með þegar maður kemur á nýjan stað.“

Þessi mynd sem tekin var eftir að fjölskyldan kom heim …
Þessi mynd sem tekin var eftir að fjölskyldan kom heim sýnir farið eftir gardínusnúruna á hálsi drengsins, nokkrum klukkutímum eftir óhappið. Ljósmynd/Úr einkasafni
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert