Mastrið ekki upp á næstunni

Tæplega fimmtíu metra mastur sem stóð á Viðarfjalli í Þistilfirði þar til í nótt þegar það féll til jarðar fer ekki upp á næstunni. Unnið verður að því að koma búnaði sem var uppi í mastrinu yfir á önnur möstur. Útsendingar RÚV liggja niðri á stórum svæðum og óvíst hvenær viðgerð lýkur.

Vodafone sér um rekstur búnaðar sem var uppi í mastrinu. Hrannar Pétursson, framkvæmdastjóri samskiptasviðs Vodafone á Íslandi, segir að menn á vegum fyrirtækisins og verktakar séu á vettvangi eða á leiðinni þangað. „Aðstæður eru hins vegar mjög erfiðar og veðurspá er slæm. Bæði er vont ferðaveður og slæmt veður til að athafna sig á svæðinu.“

Hann segir að hliðræna sjónvarpsútsending RÚV hafi dottið út og eins Rás 1 og Rás 2. Stafrænar útsendingar eru hins vegar virkar, þar sem þær eru í boði og sé það á öllum þéttbýlisstöðum. Þá hafi þetta engin áhrif haft á netsamband. „Megináherslan er lögð á að koma útvarpinu inn aftur.“

Spurður út í hvenær búist er við að viðgerð ljúki segir Hrannar að óvarlegt sé að fullyrða nokkuð á þessum tímapunkti. „Mastrið er ekkert að fara upp á næstunni. Það sem menn munu gera er að reyna koma upp búnaði í önnur möstur. Því verður flýtt sem frekast er unnt, en aðstæður eru erfiðar og hugsanlega þarf að skipta út búnaði sem skemmdist þegar mastrið féll.“

Frétt mbl.is: 48 metra mastur féll til jarðar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert