Réðst á sjúkraflutningamann

Ráðist var á sjúkraflutningamann aftan í sjúkrabílnum.
Ráðist var á sjúkraflutningamann aftan í sjúkrabílnum. Eggert Jóhannesson

Sjúkraflutningamaður frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins þurfti að leita sér aðhlynningar á slysadeild Landspítalans eftir að karlmaður sem verið var að flytja á sjúkrahúsið réðst á hann aftur í sjúkrabílnum. Varðstjóri segir atvik sem þetta mjög fátíð en afar leiðinlegt sé þegar slíkt kemur upp.

Vegna trúnaðarskyldu sjúkraflutningamanna er lítið hægt að segja til um árásarmanninn, forsögu þess að hann var fluttur á Landspítalann eða hvaða skýringar hann gaf á hegðun sinni. „Það kemur stundum til ryskinga þegar fólk er ósátt við að vera flutt á sjúkrahús. Það er þá oftast nær fólk sem er undir áhrifum. En þetta er mjög fátítt og leiðinlegt að svona gerist.“

Maðurinn réðst með höggum á sjúkraflutningamanninn sem hlaut töluverðar bólgur í andliti, meðal annars á nefi. Hann var útskrifaður af Landspítalanum eftir að gert var að sárum hans. Árásarmaðurinn var hins vegar færður lögreglumönnum sem handtóku hann. Hann verður að öllum líkindum kærður fyrir líkamsárás.

Nóttin var mjög erilsöm hjá sjúkraflutningamönnum en rólegt hefur verið í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert