„Það er ekkert ferðaveður í Langadal. Björgunarsveitarmenn segja að þar sé varla stætt,“ segir Birgir Ingólfsson, lögreglumaður á Blönduósi, en mjög slæmt veður hefur verið þar í morgun.
Tveir bílar fóru út af veginum og fóru björgunarsveitarmenn til að aðstoða þá. Birgir segir að það sé skafrenningur og mjög hvasst, en vindhraði fór upp fyrir 30 m/sek í morgun. Áfram er spáð hvössu veðri á þessum slóðum. Vegurinn yfir Þverárfjall er ófær.
Öxnadalsheiði lokaðist í nótt, en þar voru ökumenn í vandræðum. Félagar í Björgunarsveitinni Súlum á Akureyri fóru nokkrar ferðir upp á heiðina í nótt og í morgun til að aðstoða ökumenn.