„Þetta er mjög spennandi. Sérstaklega í ljósi þess að ég gerði aldrei ráð fyrir því að leika Hamlet. Hélt ekki að ég væri týpan í það,“ segir Ólafur Darri Ólafsson í samtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins en hann fer með hlutverk Danaprinsins fræga í sýningu sem frumsýnd verður í Borgarleikhúsinu um næstu helgi. Höfundur verksins er William Shakespeare.
„Þegar mér var boðið að leika Lenný í Músum og mönnum hér í Borgarleikhúsinu í fyrra kom það mér ekki sérstaklega mikið á óvart. Við erum ekki svo margir hér á landi, stóru leikararnir, sem pössum í það hlutverk. Öðru máli gegnir um Hamlet, maður sér ýmsa fyrir sér í hlutverki hans,“ segir Ólafur Darri.
Fljótt leysti eftirvæntingin undrunina af hólmi. „Ég hafði ekki lesið Hamlet síðan ég var í leiklistarskólanum fyrir fimmtán árum og það var mjög spennandi að nálgast verkið aftur núna á þessum forsendum. Til að byrja með velti ég því aðeins fyrir mér hvort ég væri orðinn of gamall í hlutverkið en ef ég á að vera alveg hreinskilinn er ég feginn að hafa ekki verið boðið það fyrr. Það er gott að búa að fimmtán ára reynslu þegar maður tekst á við Hamlet. Mér finnst ég hafa meira að segja núna. Þetta er nógu erfitt þótt maður sé orðinn fertugur,“ segir hann og brosir.
Hildur Berglind Arndal leikur Ófelíu í sýningunni. Hún er á sínu fyrsta leikári í Borgarleikhúsinu, brautskráðist frá Listaháskóla Íslands síðastliðið vor. Leikhúsgestir hafa þegar séð hana í Húsi Bernhörðu Alba, þar sem hún leikur yngstu dótturina, og framundan eru hlutverk í Ferjunni eftir Kristínu Marju Baldursdóttur og Baldri eftir Skálmöld. Dágott á fyrsta ári.
„Ég tek öllum þessum verkefnum fagnandi. Hús Bernhörðu Alba var mikil áskorun og það á við um Hamlet líka. Ófelía er stórbrotin persóna og ég skil hvernig henni líður í þessum erfiðu aðstæðum og hvers vegna hún grípur til slíkra örþrifaráða,“ segir Hildur Berglind.
Viðtalið í heild má lesa í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins sem kemur út á morgun.