Viðbótargreiðsla til lífeyrisþega til leiðréttingar vegna breytinga á lögum og reglugerðum um áramót verður greidd út 17. janúar 2014. Um áramóti hækkuðu bætur almannatrygginga um 3,6%.
Þar með eru taldar lífeyrisgreiðslur og greiðslur vegna félagslegrar aðstoðar (s.s. umönnunargreiðslur, mæðra- og feðralaun, dánarbætur og heimilisuppbót). Einnig hækka greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna og lifandi líffæragjafa til tímabundinnar fjárhagsaðstoðar.
Frítekjumörk vegna lífeyrissjóðstekna ellilífeyrisþega gagnvart tekjutryggingu og heimilisuppbót hækka úr 15.800 kr. í 21.600 kr. á mánuði . Frítekjumörk vegna atvinnutekna og fjármagnstekna eru óbreytt.
Í fréttatilkynningu á vef Tryggingastofnunar kemur fram að frítekjumörk fyrir örorkulífeyrisþega haldast óbreytt. Það á við um atvinnutekjur, lífeyrissjóðstekjur og fjármagnstekjur.
Áhrif tekna á tekjutryggingu elli- og örorkulífeyrisþega verður 38,35% í stað 45%. Jafnframt dregur úr áhrifum tekna á heimilisuppbót.
Efri tekjumörk fyrir sérstaka uppbót til framfærslu, svo kölluð lágmarksframfærslutrygging, hækkar úr 210.922 kr. og verður 218.515 kr., fyrir einstakling sem býr einn og fær heimilisuppbót, en úr 181.769 kr. í 188.313 kr. fyrir þá sem ekki fá greidda heimilisuppbót.
Orlofsuppbót verður 20% og desemberuppbót 30% af tekjutryggingu og heimilisuppbót. Hvorutveggja er óbreytt frá því sem áður var.
Bráðabirgðaákvæði um samanburðarútreikning á vistunarframlagi heimilismanna á stofnun fyrir aldraða er framlengt.
Frítekjumörk vegna kostnaðarþátttöku heimilismanna á stofnun fyrir aldraða í dvalarkostnaði hækka úr 70.000 kr. í 72.520 kr. á mánuði.
Vasapeningar vegna dvalar á sjúkrastofnun verða 51.800 kr. á mánuði.“