Óveður er á Kjalarnesi og fór vindhraði upp fyrir 40 m/sek í hviðum í morgun. Ekkert lát er á NA-storminum en honum fylgir nær samfelld snjókoma og skafrenningur á fjallvegum á Vestfjörðum og Ströndum.
Annars staðar lægir mikið þegar líður á morguninn, en hiti verður áfram yfir frostmarki á láglendi.
Það er óveður á Lyngdalsheiði, hálka á Hellisheiði en hálkublettir í Þrengslum. Þjóðvegur 1 er auður frá Hveragerði allt austur í Hamarsfjörð en hálka eða hálkublettir eru nokkuð víða á öðrum vegum á Suðurlandi. Flughált í Grafningi, Fljótshlíð og í Landeyjum. Eins er flughált á Krýsuvíkurvegi og í Kjósarskarði.
Á Vesturlandi er víða óveður, s.s. við Hafnarfjall, á Holtavörðuheiði, Bröttubrekku, Svínadal og á Snæfellsnesi. Vindhraði fór upp í 49 m/sek í hviðum við Hraunsmúla sem er á sunnanverðu Snæfellsnesi. Stórhríð er á Fróðárheiði. Flughált er í Hvítársíðu.
Á Vestfjörðum er víðast hvar óveður og sumstaðar stórhríð. Það er helst að fært sé milli nokkurra þéttbýlisstaða á norðanverðum Vestfjörðum en flestar leiðir eru annaðhvort ófærar af snjó eða illfærar vegna veðurs.
Mjög hvasst er í Húnavatnssýslum og hálka eða hálkublettir, þó flughált milli Blönduóss og Skagastrandar. Þverárfjall er lokað vegna flughálku og hvassviðris. Öxnadalsheiði var ófær í morgun en unnið er að snjómokstri og er reiknað með að hún verði fær fljótlega. Flughált er á köflum í Skagafirði og við Eyjafjörð. Óveður er á Hófaskarði. Verið er að opna yfir Mývatns- og Möðrudalsöræfi.
Flughált er á Sandvíkurheiði og víða á Fljótsdalshéraði. Hálka er á Fjarðarheiði, Fagradal og Oddsskarði en autt frá Fáskrúðsfirði með ströndinni suður um.