Hætt var við lendingu farþegaþotu á leið frá Las Palmas til Keflavíkur síðdegis í gær þegar í ljós kom að önnur flugvél var fyrir á flugbrautinni á Keflavíkurflugvelli. Þetta uppgötvaðist í aðflugi og var farþegum nokkuð brugðið þegar vélin hækkaði skyndilega flugið á nýjan leik.
Greint er frá þessu á bloggsvæði Sveins R. Pálssonar. Þar segir: „Þegar flugvélin var við það að lenda var skyndilega hætt við lendingu, allt gefið í botn og vélinni snúið upp aftur. Eðlilega var mögum brugðið. Tilkynnti flugmaður að önnur flugvél hefði verið fyrir á vellinum og því hefði hann þurft að hætta við lendingu.“
Í samtali við mbl.is staðfesti Friðþór Eydal, talsmaður Isavia, að ekki hefði verið hægt að lenda flugvélinni á flugbrautinni þar sem önnur vél hafði tafist þar og var fyrir. Flugstjórinn hefði því verið beðinn að hækka flugið á ný og fara aukahring. Vélinni hefði svo verið lent skömmu síðar án nokkurra erfiðleika.