Enn á ný er bóksala umdeild en fyrir jólin hættu bókabúðir að taka þátt í bóksölulistanum sem er haldið úti af Félagi íslenskra bókaútgefenda. Deilt er um afslátt stórmarkaða á bókum sem eru sagðir kaupa einstaka titla á lægra verði en bókabúðum hefur boðist að kaupa frá forlagi.
Tæplega þrjátíu ár eru liðin frá því að bækur fóru að fást á stórmörkuðum og iðulega hefur verið deilt um hvernig staðið er að sölunni. Rithöfundar eru margir á þeirri skoðun að munurinn á verði í bókabúðum og stórmörkuðum sé orðinn of mikill. Dæmi eru um að rithöfundar hafi keypt bækur í stórmarkaði til að hafa með sér í sölu á bókakynningu þar sem þeir hafi fengið bækurnar á betra verði í stórmarkaðinum en hjá sínu eigin forlagi.
Blaðamaður mbl.is ræddi við Bryndísi Loftsdóttur sem heldur utan um bóksölulista Félags íslenskra bókaútgefenda, Ingþór Ásgeirsson framkvæmdastjóra sölusviðs Pennans - Eymundsson og Kristínu Steinsdóttur formann rithöfundasambandsins um stöðuna sem komin er upp á bóksölumarkaði.