Þrjú hundruð manns þreyttu inntökupróf fyrir verðandi flugverja WOW Air í Háskólabíói í dag en félagið auglýsti eftir flugverjum í lok nóvember síðastliðins og bárust um 1.200 umsóknir um þau 50-60 störf sem í boði eru.
„Það er aukin aðsókn frá því í fyrra en um 400 fleiri umsóknir bárust núna í ár. Einnig má sjá að áhugi karlmanna hefur aukist á starfinu en mun fleiri karlmenn sóttu um nú en fyrir ári síðan,“ segir í tilkynningu frá WOW Air. Næsta vor bætast nýir áfangastaðir við leiðakerfi félagsins sem þýðir þörf fyrir að ráða fleiri flugverja til starfa. Að umsóknarferlinu loknu munu verðandi flugverjar sitja öryggis- og þjónustunámskeið í tvo mánuði.
Næsta sumar munu um 130 flugverjar starfa hjá WOW air. „Í hópi umsækjanda eru meðal annars lögfræðingar, hjúkrunarfræðingar, leikarar, kennarar, dansarar, verkfræðingar, tannlæknanemar og afreksfólk í íþróttum svo nokkur dæmi séu tekin. Gífurlegur fjöldi hæfra einstaklinga sótti um en því miður komast færri að en vilja,“ segir ennfremur.