„Nái þetta frumvarp fram að ganga og verði samþykkt sem lög þrengir mjög að okkur leigubílstjórum. Tilgangurinn virðist líka mjög óljós. Samkvæmt núgildandi lögum mega hópferðabílar aðeins vera níu farþega eða fleiri, en nú er þetta fært niður í fjóra farþega.“
Þetta segir Björgvin Kristinsson, formaður stjórnar leigubílastöðvarinnar City Taxa í Reykjavík, í Morgunblaðinu í dag. Þar á bæ eru menn ósáttir við fyrirhugaðar breytingar á lögum varðandi farþegaflutninga í atvinnuskyni.
Sú gagnrýni snýr einkum og helst að því að færra fólk þarf í bílinn svo talað sé um hópferð, en einnig að leigubílstjórar þurfi að skila inn starfsleyfi sínu sjötugir en hingað til hafa þeir haft réttindin sex árum lengur stæðust þeir læknisskoðun. Þá hefur ekkju og ekkli verið leyft að nýta réttindin í þrjú ár eftir fráfall maka en nú verður sá tími styttur niður í eitt ár.