Guðni Már er ennþá á RÚV

Guðni Már Henningsson útvarpsmaður.
Guðni Már Henningsson útvarpsmaður.

Það kom væntanlega mörgum nokkuð á óvart þegar rödd útvarpsmannsins Guðna Más Henningssonar heyrðist á Næturvaktinni á Rás 2 um nýliðna helgi. Guðni Már var í hópi þeirra sem var sagt upp á RÚV fyrir skömmu og Næturvaktin lögð af og fékk uppsögn hans talsverða umfjöllun. Nú hefur verið ákveðið að hann verði a.m.k. áfram með sunnudagsþátt sinn.

„Já, ég var á Næturvaktinni um helgina. Skýringin er sú að þátturinn var skráður á dagskrá og þess vegna var ég beðinn um að koma með stuttum fyrirvara. Ætli það hafi ekki gleymst að taka hann af dagskrá. Það verður að standa við dagskrána,“ segir Guðni kátur.

Var fólk ánægt að heyra í þér? „Já, heldur betur. Það eru ekki margir þættir í útvarpi sem hægt er að hringja í, það er greinilega þörf fyrir svona þátt.“

Stendur til að Næturvaktin verði áfram á dagskrá? „Ég veit ekki hvort svo verður og ég held að eins og staðan er núna, þá viti það enginn. Það er óvissa með svo margt hjá RÚV þessa dagana. En ég veit þó að ég verð áfram með sunnudagsþættina mína sem eru kl 12:45 - 15:00 alla sunnudaga.“

Fékk jólagjafir, sokka og peysur

Uppsögn Guðna Más fékk talsverða athygli og umfjöllun og hörmuðu margir að hann hyrfi af öldum ljósvakans. „Ég er ekki eini maðurinn sem hefur hætt í útvarpi. Ég kom algjörlega ofan af fjöllum við þessi viðbrögð, allar þessar kveðjur sem ég hef fengið. Ég átti ekki von á þessu. Svo streymdu til mín jólagjafir, kort og vísur og dóttir mín fékk senda vettlinga, sokka og peysur. Ég verð að segja eins og er að ég klökknaði við þetta. Þessar gjafir koma frá fólki sem ég þekki ekkert og hef aldrei hitt. Þetta er með ólíkindum.“

Guðni segir að frá því honum var sagt upp hafi hann sjaldan unnið jafn mikið. „Eins merkilegt og það kann að vera. Ég tók aukavaktir um jólin, var t.d. tæknimaður á jóladag. Ég held það ætti að segja mér upp einu sinni í mánuði eða svo, þá fengi ég alltaf nóg að gera.“

Frétt mbl.is: Ætlar að skrúfa fyrir Rás 1 og Rás 2

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert