Komið að ögurstundu

Úr framhaldsskólastarfi.
Úr framhaldsskólastarfi. Kristinn Ingvarsson

Að mati Aðalheiðar Steingrímsdóttur, formanns Félags framhaldsskólakennara er komið að ögurstundu hvað varðar kjör kennara, en félagið á nú í samningaviðræðum við samninganefnd ríkisins um endurnýjun kjarasamnings, sem rennur út í lok þessa mánaðar. Hún segir kjörin vera dragbít á skólastarfið í landinu.

Hátt í 2.000 ríkisstarfsmenn eru í Kennarasambandi Íslands. Fimm samningafundir hafa verið haldnir á milli framhaldsskólakennara og samninganefndar ríkisins síðan í byrjun desember, sá síðasti var í gær. Næst verður fundað á mánudaginn, 13. janúar og Aðalheiður býst við því að samningar verði erfiðir.

Skýrsla um launaþróun á vinnumarkaði 2006-2013 sýnir að munurinn á meðaldagvinnulaunum félagsmanna í Kennarasambandi Íslands og helstu viðmiðunarhópa hjá ríkinu er um 17%. Grunnlaun nýútskrifaðs framhaldsskólakennara eru um 300.000 á mánuði og meðal mánaðarlaun í stéttinni eru um 390.000. Krafa framhaldsskólakennara er að launakjörin verði sambærileg og hjá skyldum hópum hjá ríkinu sem eru með áþekka menntun.

„Þessar niðurstöður skýrslunnar koma okkur ekkert á óvart, við vakið athygli á þessu í mörg ár,“ segir Aðalheiður. „En það blasa við mjög erfiðir kjarasamningar, eins og staðan er núna lítur þetta ekki vel út. Launabilið sem þarf að brúa er orðið svo stórt.“

Gerið þið þá kröfu að það verði brúað að fullu í þessum einu samningum? „Já, það þarf að gera það. Við gerum okkur grein fyrir að það verður ekki gert í einum hvelli og þess vegna höfum við lagt á það áherslu í þessum viðræðum að við séum opin fyrir allskonar aðferðum við samningagerð. Við erum t.d. ekki með ákveðnar hugmyndir um samningstíma, við erum opin fyrir stuttum samningstíma, löngum samningstíma eða þrepaskiptum samningi. Við viljum ræða við okkar viðsemjendur um allar þær aðferðir sem hægt er að nota til að laga launakjörin í framhaldsskólunum. Svona getur þetta ekki gengið áfram.“

Almennar leiðréttingar koma ekki til greina

Aðalheiður segir að á fundinum í gær hafi sú hugmynd verið viðruð af hálfu viðsemjandans að framhaldsskólakennarar myndu semja á svipuðum nótum og gert hefur verið undanfarið á almennum vinnumarkaði. Kemur það til greina? „Nei, það myndi ekki duga okkur. Við gerum þá kröfu að samninganefnd ríkisins fari í almennilegar viðræður við okkur og velti við öllum hlutum til að laga launakjörin. “

Hvers vegna hafið þið dregist svona aftur úr í launaþróun? Hafið þið samið af ykkur í gegnum tíðina? „Nei, við höfum ekki gert það. Oft höfum við samið um meira en aðrir hópar, en það hefur ekki dugað til. Við erum í sama kjarasamningskerfi og aðrar ríkisstofnanir, sem eru dreifstýrðir kjarasamningar og þeir ganga ekki upp í framhaldsskólunum. Þessi hugmyndafræði gengur út á að ef það verður hagræðing í rekstri stofnanna er heimilt að nota rekstarafganginn til að bæta kjörin. En það hefur aldrei gerst í framhaldsskólunum. Reyndar voru sumir skólarnir með afgang fyrir kreppu, en þeir fengu aldrei að njóta hans.“

Vonast til að skólastarf verði ekki fyrir truflun

Hvernig sjáið þið framhaldið fyrir ykkur? „Við förum í þessar samningaviðræður með það að markmiði að það verði ekki truflun á skólastarfi og ég vona svo sannarlega að það nái fram að ganga. Stjórnvöld þurfa að hugsa af mikilli alvöru um þessi mál. Þetta þarf að verða metnaðarmál yfirvalda menntamála. “

„Það er komið að ögurstundu, þetta getur ekki gengið svona áfram. Launakjörin eru dragbítur á skólastarfið, það er nánast engin nýliðun í stéttinni. Það er ekki langt í að fjölmargir fari á eftirlaun og þá þarf að manna fjölmargar lausar stöður. Skólarnir eru ekki samkeppnishæfir varðandi vel menntað fólk eins og staðan er í dag,“ segir Aðalheiður. „Þetta snýst ekki bara um kaup og kjör, þetta snýst um skólastarfið í landinu.“ 

Aðalheiður Steingrímsdóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara.
Aðalheiður Steingrímsdóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara. www.ki.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert