Fyrrverandi fjármálastjóri Háskóla Íslands var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdur í níu mánaða fangelsi, þar af sex mánuði skilorðsbundið, fyrir fjárdrátt.
Fjármálastjórinn virðist hafa verið nokkuð veisluglaður ef marka má úttektir á kreditkorti Háskóla Íslands í Vínbúðinni og á veitingahúsum.
Á tímabilinu 22. febrúar 2007 til og með 10. desember 2011 greiddi maðurinn með kreditkortum Háskóla Íslands sem hann hafði til umráða í 59 tilvikum, fyrir vöru og/eða þjónustu sem hann keypti í eigin þágu og voru Háskóla Íslands óviðkomandi fyrir tæplega 1,4 milljónir króna.
Maðurinn dró sér samtals tæpar 9,1 milljón króna í starfi sínu. Hann játaði brot sín hreinskilningslega og hefur að mestu bætt það tjón sem hlaust af brotum hans og samið við Háskóla Íslands um greiðslu á því sem eftir stendur.