Gæti hófs í verðhækkunum

mbl.is/ÞÖK

Sam­tök at­vinnu­lífs­ins hvetja fyr­ir­tæki til að gæta hófs í verðhækk­un­um. Þau segja fátt í ytra um­hverf­inu sem gefi til­efni til mik­illa verðhækk­ana nú. Ein mik­il­væg­asta for­senda kjara­samn­ing­anna sem gerðir voru fyr­ir jól hafi verið að tryggja að mark­miðið um 2,5% verðbólgu ná­ist á þessu ári.

„Tak­ist það er lagður grunn­ur að stöðug­leika til lengri tíma, búið í hag­inn fyr­ir kaup­mátt­ar­aukn­ingu og aukna at­vinnu og sköpuð skil­yrði til lækk­un­ar vaxta. All­ir munu hagn­ast ná­ist þetta. Skil­yrði til fjár­fest­inga batna, hag­vöxt­ur get­ur auk­ist, fram­leiðni fyr­ir­tækja eykst og lífs­kjör munu batna,“ seg­ir í pistli sem birt­ur er á heimasíðu SA.

Sam­tök­in segja að frétt­ir fjöl­miðla af yf­ir­vof­andi verðhækk­un­um inn­lendra fram­leiðenda mikið áhyggju­efni.

„Með því að miða við verðbólgu liðins tíma þegar tekn­ar eru ákv­arðanir um verðhækk­an­ir er mark­miðum kjara­samn­ings­ins stefnt í hættu. Verðlags­breyt­ing­ar verða að taka mið af horf­un­um fram und­an og þótt kunni að þrengja að á ein­stök­um sviðum þá verður ávinn­ing­ur­inn miklu meiri þegar upp er staðið.

Sam­tök at­vinnu­lífs­ins leggja mikla áherslu á að ríkið, sveit­ar­fé­lög og fyr­ir­tæk­in stilli gjald­skrár­hækk­un­um og verðhækk­un­um í hóf. Mark­mið samn­ing­anna munu ekki nást nema all­ir aðilar virði þau og myndi sam­stöðu gegn verðbólgu. Það er tæki­færi til að skapa stöðugt verðlag sem kem­ur öll­um til góða, seg­ir enn­frem­ur.

Þá kem­ur fram, að það sé ytra um­hverf­inu nú sem gefi til­efni til mik­illa verðhækk­ana. Verðbólga er­lend­is hafi verið lág og gengi ís­lensku krón­unn­ar hafi styrkst á und­an­förn­um mánuðum. Niðurstaða kjara­samn­inga sé í sam­ræmi við verðlags­stöðug­leika og gefi því ein og sér ekki til­efni til mik­illa verðbreyt­inga.

„Sveit­ar­fé­lög hafa mörg hver lýst því yfir að eng­ar hækk­an­ir verði á gjald­skrám þeirra nú um þessi ára­mót. Jafn­framt hef­ur rík­is­stjórn­in heitið því að draga hluta verðhækk­ana sinna til baka, verði ný­gerðir kjara­samn­ing­ar samþykkt­ir. Það er því í hönd­um fyr­ir­tækj­anna að tryggja að við náum sett­um mark­miðum hvað varðar verðlags­stöðug­leika á þessu ári.

Verðbólg­an hækk­ar skuld­ir fyr­ir­tækja ekki síður en ein­stak­linga og ná­ist ekki mark­mið samn­ing­anna munu fyr­ir­tæk­in finna ótæpi­lega fyr­ir aukn­um vaxta­kostnaði. Minni verðhækk­an­ir ein­stakra fyr­ir­tækja munu því gagn­ast þeim sjálf­um ekki síður en öðrum,“ seg­ir SA.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka