Mætti ramma áramótin betur inn?

Mannfjöldi við Hallgrímskirkju á gamlárskvöld.
Mannfjöldi við Hallgrímskirkju á gamlárskvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Mikill mannfjöldi fagnaði nýju ári á Skólavörðuholti á gamlárskvöld. Segja má að Hallgrímstorg sé orðin hin íslenska samsvörun við Times Square í New York.

Við kirkjuna er þó engin skipulagður viðburður og klukkur Hallgrímskirkju hringja ekki á miðnætti eins og áður tíðkaðist, en ekki er útilokað að sá siður verði endurvakinn.

Ferðamenn vígbúnir þrífótum

Reykjavík er rækilega komin á kortið sem eftirsóknarverður staður til að verja áramótunum. Má þar nefna að ferðatímaritið Condé Nast útnefndi Reykjavík eina af 10 alþjóðlegum borgum þar sem áramótagleðin er yfirdrifnust.

Þegar flugeldatryllingurinn náði hámarki á gamlárskvöld hafði röð erlendra ferðamanna stillt sér upp í hjarta Reykjavíkur, meðfram Frakkastíg með myndavélar á þrífæti sem beindust að Hallgrímskirkju. Nokkrir útlendingar gripu til þess ráðs að leggjast á stéttina fyrir framan kirkjudyrnar, til að geta virt fyrir sér ljósadýrðina án þess að fá hálsríg.

Hinsvegar var ekkert sem gaf skýrt til kynna hvenær miðnætti gengi í garð. Engin niðurtalning eða ljósaskilti sem sýndi töluna 2014. Vísarnir á turnklukkunni eru ónákvæmir og bjöllurnar slógu ekki, og heyra mátti að úr viðstaddra voru ekki samstillt því nokkur skekkja var í því hvenær nýárskveðjurnar byrjuðu að fljúga milli manna.

Blaðamanni lék því forvitni á að vita hvort ekki kæmi til greina að búa til einhvern ramma utan um þann fjölmenna viðburð sem áramót við Hallgrímskirkju eru nú þegar orðinn.

Bjöllurnar eru veðurbarðar

Frá sóknarnefnd Hallgrímskirkju fengust þau svör að fullur vilji sé til þess að virkja klukknabúnaðinn þannig að hægt verði að hringja inn nýtt ár í Hallgrímskirkju, líkt og eitt sinn tíðkaðist. Það er hinsvegar vandkvæðum bundið, því klukknaspilið er frá miðjum 8. áratugnum og erfið veðurskilyrði hafa haft sín áhrif á allan búnað, jafnt klukkur sem rafmótora.

„Þegar turninn var endurgerður fyrir nokkrum árum var sá möguleiki skoðaður að endurnýja, uppfæra og lagfæra búnaðinn. Kostnaðurinn var það mikill að fresta varð öllum framkvæmdum við klukkurnar, en skilinn var eftir vinnupallur í turnrýminu til að auðvelda vinnu við viðgerðir þótt síðar yrði,“ segir Jóhannes Pálmason, formaður sóknarnefndar Hallgrímskirkju.

Stærsta klukkan, sem heitir Hallgrímur, er sem dæmi ekki nothæf því rafmótorinn er bilaður og kólfurinn þarfnast uppfærslu. Áætlaður kostnaður við viðgerð var tæplega 50 þúsund evrur árið 2009, auk innlends kostnaðar sem skiptir milljónum, að sögn Jóhanns.

Metfjöldi ferðamanna um áramótin

Einar Bárðarson, forstöðumaður Höfuðborgarstofu, segir aðspurður að sannarlega sé orðið tilefni til að skoða hvort hægt sé gera meiri viðburð úr gamlárskvöldi við Hallgrímskirkju.

Öll hótel í Reykjavík voru meira og minna fullbókuð um áramótin. Einar segir þetta sýna að Reykjavík sé að festa sig í sessi sem vetraráfangastaður.

„Árið allt hefur verið í mikilli sókn og þetta var klárlega metfjöldi þessi áramót. Það er gaman að áramót í Reykjavík séu orðin svona mikill túristaviðburður og kannski eitthvað sem menn gerðu sér ekki alveg grein fyrir, fyrir nokkrum árum, að væri sóknarfæri í.“

Hann bætir þó við að fjölgun ferðamanna yfir vetrartímann sé engin tilviljun heldur árangur markviss og samstillts átaks ferðaþjónustunnar. „Febrúar er ennþá rólegasti mánuðurinn í ferðaþjónustunni, þótt hann sé eins og flestir mánuðir í sókn. En nú blásum við til stórsóknar í febrúarmánuði með eflingu á vetrarhátíðinni í Reykjavík.“

Reykjavík rómantískur áfangastaður

Einar segir jafnframt að framför hafi orðið í opnunartímum verslana og veitingastaða yfir jól og áramót, enda hafi sýnt sig að það borgi sig. „Ég veit dæmi þess að núna á gamlársdag þá var ein verslun með íslenska hönnun sem lengdi opnunartíma sinn, frá hádegi til klukkan 15. Veltan á þessum 3 klukkutímum var hálf milljón.“

Annað dæmi um hvernig Reykjavík hefur þróast sem vetraráfangastaður kom upp á síðasta ári, þegar Einar ræddi við yfirmann EasyJet í Norður-Evrópu.

„EasyJet var með tilboð fyrir Valentínusardaginn, fyrir febrúar 2013, og bauð upp á ferðir til Feneyja og Parísar sem eru svona augljósir valkostir fyrir elskendur. Svo hentu þeir með tilboði til Reykjavíkur, svona til gamans, en það seldust fjórar ferðir til Reykjavíkur á móti hverri ferð til Parísar eða Feneyja,“ segir Einar.

„Þannig að við erum orðin rómantískur áfangastaður líka, þó að það sé kannski ekki það fyrsta sem manni dettur í hug þegar maður stendur úti í norðangarranum.“

Mikill mannfjöldi var efst á Skólavörðuholti á miðnætti á gamlárskvöld.
Mikill mannfjöldi var efst á Skólavörðuholti á miðnætti á gamlárskvöld. mbl.is/Árni Sæberg
Ljósadýrð við Hallgrímskirkju á gamlárskvöld.
Ljósadýrð við Hallgrímskirkju á gamlárskvöld. mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson
Ófáum flugeldum var skotið á loft af Hallgrímstorgi og hefur …
Ófáum flugeldum var skotið á loft af Hallgrímstorgi og hefur færst í vöxt að ferðamenn kaupi eigin flugelda. mbl.is/Árni Sæberg
Stemning á Skólavörðustíg á gamlársvköld.
Stemning á Skólavörðustíg á gamlársvköld. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert