Margfalt metár hjá hitaveitunni á höfuðborgarsvæðinu

mbl.is/Styrmir Kári

Árið 2013 fer í bækur Orkuveitu Reykjavíkur sem margfalt metár í hitaveiturekstrinum. Heitavatnsnotkun á ári hefur aldrei verið meiri, aldrei hefur mánaðarnotkun verið meiri en í desember og mesta klukkustundarrennslið þann 6. desember nam meðalrennsli Elliðaánna

Þetta kemur fram á vef OR.

Þar segir, að í heild hafi fólk og fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu notað liðlega 78 milljónir rúmmetra af heitu vatni árið 2013.

„Átta mánuðir ársins 2013 voru metmánuðir, það er að aldrei hafði notkunin verið meiri í þeim mánuði. Ef notkun hvers mánaðar er borin saman við meðaltal áranna 2006 til 2012 kemur í ljós að alla mánuði ársins, nema í febrúar, var notkunin yfir meðallagi,“ segir á vef OR.

Fimmtíu sinnum Elliðaárnar

Þann 6. desember var metrennsli um hitaveituæðarnar í borginni. Um kvöldmatarleytið þennan föstudag náði klukkustundarrennslið 16.087 rúmmetrum á klukkustund. Það gera um 270 rúmmetra á mínútu, eða 4,5 á sekúndu og svarar til rennslis Elliðaanna af heitu vatni í híbýli á höfuðborgarsvæðinu, frá Hafnarfirði í suðri til Kjalarness í norðri. Fyrra klukkustundarmet var frá árinu 2008 og nam 15.614 rúmmetrum á klukkustund.

Það er mikil orka í öllu þessu heita vatni og svarar aflið í þessum 16.000 tonnum á klukkustund til liðlega 930 megavatta afls. Til samanburðar er samanlagt afl tveggja stærstu vatnsaflsvirkjana landsins 960 megavött. Þetta eru Kárahnjúkavirkjun (690 MW) og Búrfellsvirkjun (270 MW).

Nánar á vef OR.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert