Samninganefnd Drífanda stéttarfélags mótmælir harðlega verðhækkunum opinberra aðila sem þegar eru farnar að herja á almenning, segir í yfirlýsingu frá samninganefnd Drífanda.
„Blekið er varla orðið þurrt á nýlegum kjarasamningum sem menn skrifuðu „bláeygðir“ undir, er verðhækkanir byrja að skella á almenningi.
Mesta grínið við þessar verðhækkanir er að ráðherra skrifaði undir reglugerð um tugprósenta hækkun á komugjöld á heilsugæslustöðvar og læknisvitjanir 20. desember sl. Örfáum klukkustundum áður höfðu ASÍ og SA gert samkomulag við ríkisstjórnina um hófsemd í verðhækkunum opinberrar þjónustu. Til að mynda hækkaði vitjun læknis um 21,4%.
Þetta er saga sem hefur endurtekið sig samninga eftir samninga, og erum við í Eyjum hætt að láta plata okkur. Við skrifum ekki undir marklaus plögg eins og nýlegur kjarasamningur er. Greinilega á aðeins launafólk að fara eftir samningnum og engir aðrir. Lægstu laun okkar hækka aðeins frá 3% eða kr. 8.000 fyrir skatta, á meðan vörur og þjónusta er byrjuð að hækka um tugi prósenta.
Hér er vitnað í yfirlýsingu fjármálaráðherra í tengslum við nýgerðan kjarasamning:
„Næstu tvö ár verði gjaldskrárhækkanir ríkisins undir verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands, miðað við þær forsendur sem samningarnir byggja á. Náist kjarasamningar til lengri tíma með stöðugleika að leiðarljósi yrði stefnt að því að gjaldskrárhækkanir ríkisins verði innan þeirra marka út samningstímann. Þannig leggur ríkisstjórnin sitt af mörkum til að tryggja verðlagsstöðugleika með öðrum opinberum aðilum. Afar brýnt er að fyrirtæki á markaði axli ábyrgð á þróun verðlags og er gengið út frá að svo verði.
Eins og sést í yfirlýsingunni er annaðhvort verið að gera grín að launafólki með samningnum og meðfylgjandi yfirlýsingu eftir þessar verðhækkanir, eða verðbólgumarkmið Seðlabankans eru vel yfir 20% á samningstímanum!!
Að framansögðu hvetjum við allt launafólk til að hætta að láta plata sig og gera grín að sér. Fella samningana og sækja sameinuð fram til betri kjara.
Samninganefnd Drífanda lýsir einnig einróma fullum stuðningi og trausti á málflutning og framgöngu formanns samninganefndar, og Drífanda stéttarfélags undanfarnar vikur,“ segir í yfirlýsingu Drífanda.