Starfsmenn Reykjavíkurborgar dreifa 30-40 tonnum af sandi daglega, eða um 200 tonnum á viku.
„Við erum stöðugt á ferðinni og í þessu tíðafari er það viðvarandi verkefni að halda gönguleiðum greiðfærum. Klakinn er ekkert að hverfa við þetta hitastig,“ segir Sigurður Geirsson stjórnandi dráttavéladeildar Reykjavíkurborgar og hann gerir ráð fyrir að vera á ferðinni með allan sinn mannskap inn í helgina og áfram næstu viku.
Þetta kemur fram á vef borgarinnar.
Þar segir ennfremur, að eftir stígum og gangstéttum fari sérútbúnar dráttarvélar sem borgin keypti haustið 2012.
Í forgangi séu helstu göngu- og hjólastígar, svokallaðir stofnstígar milli borgarhluta og síðan helstu gönguleiðir að strætóbiðstöðvum og skólum sem eiga að vera greiðfærar fyrir kl. 8:00 virka daga. Notaður er þveginn sandur (0 – 8 mm) á gönguleiðir en saltblanda við strætóbiðstöðvar.
Nánar á vef Reykjavíkurborgar.