Hætta við gjaldskrárhækkanir

Frá einu af bílastæðahúsum Reykjavíkurborgar.
Frá einu af bílastæðahúsum Reykjavíkurborgar. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Hætt hefur verið við að hækka gjaldskrár Bílastæðasjóðs Reykjavíkurborgar sem gildir fyrir bílastæðahús borgarinnar. Sama verð mun því gilda og fyrir áramót eða 80 kr. fyrir fyrsta klukkutímann og 50 krónur fyrir hvern klukkutíma eftir það. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

„Ástæðan fyrir þessari ákvörðun er sú að Reykjavíkurborg dró um miðjan nóvember til baka gjaldskrárhækkanir í öllum helstu þjónustuflokkum sem áttu að taka gildi um áramótin. Sú ákvörðun var tekin til að liðka fyrir kjarasamningum, efla frið á vinnumarkaði og til að halda stöðugleika í verðlagsmálum svo að kaupmáttur launa aukist,“ segir í tilkynningu. 

Gjaldskrá bílastæðasjóðs verður því óbreytt um óákveðinn tíma. Ef forsendur bregðast hins vegar áskilur Reykjavíkurborg sér rétt til að taka gjaldskrár til endurskoðunar á síðari hluta árs 2014.

„Einu gjaldskrárhækkanirnar sem verða á þjónustu Reykjavíkurborgar eru hækkanir á stöku gjaldi í sund og á aðgangseyri í söfn borgarinnar en þær hækkanir snúa aðallega að ferðamönnum en ekki að reglulegum notendum þjónustunnar sem kaupa þar til gerð kort,“ segir í tilkynningu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka