Mikil ísing tók að myndast á götum og gangstígum í höfuðborginni í morgun eftir rigningu næturinnar og áttu margir erfitt með að fóta sig á svellinu. Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum sóttu óvenju margir slysadeild heim vegna hálkuslysa í dag.
Í samtali við mbl.is sagði læknir á Landspítalanum álagið hafa verið mjög mikið um stund og að röntgendeild spítalans hafi átt í fullu fangi með að taka af fólki myndir. Ekki fengust þó upplýsingar um hvort einhver alvarleg slys hafi átt sér stað í hálkunni né heldur hversu mörg slysin voru.
Samkvæmt upplýsingum frá varðstjóra hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins voru um tíu manns fluttir undir læknishendur með sjúkrabíl eftir að hafa dottið í hálku. „Meirihluti þeirra sem slasast í hálku fer hins vegar ekki með okkur.“
Í dag greindi mbl.is frá því að starfsmenn Reykjavíkurborgar dreifa um 30 til 40 tonnum af sandi daglega á stíga og gangbrautir borgarinnar. Guðjóna Björk Sigurðardóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu reksturs og umhirðu borgarlands, segir borgarstarfsmenn keppast við að hálkuverja gangstíga og -brautir borgarinnar.
„Hitastigið er núna stöðugt að breytast og þegar það er þíða, líkt og verið hefur, er ástandið á gönguleiðum ótrúlega fljótt að breytast,“ segir Guðjóna Björk og bendir á að borgarstarfsmenn noti nær eingöngu sand við hálkuvarnir á gangstígum.
Aðspurð segir hún gangstíga eitt sinn hafa verið saltaða í borginni en slíkt hafi ekki vakið almenna hrifningu meðal borgarbúa. „Skólarnir voru ekki hrifnir af þessu því saltið fór illa með dúka í skólum og þá var horfið frá þessu. Þetta hefur hins vegar verið í umræðunni og stundum höfum við blandað salti við sandinn,“ segir Guðjóna Björk og bendir á að almennt hafi reynst vel að vinna gegn klaka og ísmyndun á gangstígum með slíkri blöndu.
Skóvinnustofa Hafþórs við Garðastræti í Reykjavík býður viðskiptavinum sínum upp á fimm tegundir af mannbroddum til að forða fólki frá hálkuslysum. „Þetta hefur selst mjög vel að undanförnu og virðist salan vera meiri í ár en í fyrra,“ segir Logi Arnar Sveinsson skósmiður.
Aðspurður segir hann fólk á öllum aldri kaupi sér mannbrodda. „Það var t.a.m. einn hér um daginn sem var að fara að spila fótbolta og vildi standa í lappirnar í leiknum.“