Byggingarfulltrúi Reykjavíkur samþykkti á þriðjudaginn niðurrif á húsunum á lóð Hverfisgötu 103. Verslunin Nexus var áður þarna til húsa. Lóðin er á svæðinu milli Barónsstígs og Snorrabrautar, neðan við Hverfisgötuna. Til stendur að reisa 100 herbergja lúxushótel á lóðinni.
„Niðurrifið hefst bara núna í janúar,“ segir Sigurður Andrésson, framkvæmdastjóri og eigandi SA Verks ehf., sem sér um niðurrifið og uppbygginguna. Sigurður vonast til að framkvæmdum verði að miklu leyti lokið í sumarbyrjun.
Hótelið á að taka til starfa í maí 2015 og verður rekið af KEA-hótelum, hannað á teiknistofunni Opus á Akureyri. KEA mun einnig hafa tryggt sér gamla Reykjavíkurapótekshúsið við Austurstræti 16 undir hótelrekstur, að því er fram kemur í umfjöllun um hóteláform þessi í Morgunblaðinu í dag.
Sæmundur í sparifötunum, eigandi KEX-hostels, sótti um byggingarleyfi til að innrétta veitingastað í húsnæði neðar í sömu götu, við Hverfisgötu 12, á horni Ingólfsstrætis og Hverfisgötu.
Pétur Marteinsson, einn eigenda fyrirtækisins, vildi lítið gefa upp um hvað til stæði að gera í húsnæðinu, en sagði að von væri á að það myndi skýrast mjög fljótlega. Sama teymi og er að baki KEX sækir um leyfið, en við Hverfisgötuna verður þó ekki gistiaðstaða.