Reykvíkingar eru óánægðari með þjónustu borgarinnar en íbúar fimmtán annarra sveitarfélaga með þjónustu í sinni heimabyggð. Þetta kemur fram í þjónustukönnun sem Capacent Gallup gerði fyrir árið 2012 og rædd var í borgarráði í morgun. Garðabær og Seltjarnarnes verma oftast efsta sætið.
Könnunin náði, eins og áður segir, til sextán sveitarfélaga á landinu. Meðal annars var spurt hversu ánægðir viðkomandi íbúar væru með að búa í sveitarfélagi sínu. Reykjavíkurborg lenti þar í 10. sæti en í efstu sætin röðuðust Mosfellsbær, Akureyri, Seltjarnarnes og Garðabær. Í neðsta sæti var Reykjanesbær.
Einnig var spurt út í skipulagsmál. Þar var ánægjan mest í Garðabæ en Reykjavík hafnaði í 14. sæti. Borgin var í 15. sæti þegar spurt var út í gæði umhverfisins í nágrenni við heimili svarenda og aðeins Reykjanesbær var fyrir neðan.
Þegar svo spurt var út í þjónustu Reykjavíkurborgar fékk hún falleinkunn. Borgin var í neðsta sæti af sveitarfélögunum þegar spurt var út í þjónustu við barnafjölskyldur, þjónustu grunnskóla, þjónustu leikskóla, þjónustu við eldri borgara og þjónustu við fatlað fólk. Garðabær og Seltjarnarnes voru hins vegar oftast í efstu sætum.
Hins vegar, þegar spurt var um þjónustu Reykjavíkur í heildina litið, út frá reynslu og áliti, hækkaði Reykjavíkurborg um tvö sæti þegar litið er á sveitarfélögin öll.
Sem áður segir var þjónustukönnunin til umræðu á fundi borgarráðs í morgun. Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sagði í samtali við mbl.is eftir fundinn að í þjónustukönnuninni komi fram sorgleg staðreynd. „Af þessum samanburði við önnur sveitarfélög sést að Reykjavíkurborg veitir að mati borgarbúa ófullnægjandi þjónustu og ekkert sveitarfélag fær neðsta sætið jafn oft og Reykjavík.“
Hann segir að af könnuninni megi sjá að borgarbúar séu óánægðir með skipulagsmál og samgöngumál, en ekki síst með þjónustuna í borginni. „Auðvitað er mikið áhyggjuefni að grunnskólarnir og leikskólarnir okkar þykja lakastir í samanburði við önnur sveitarfélög og þjónusta við eldri borgara og fatlað fólk fær sams konar falleinkunn.“
Capacent Gallup hringdi í 10.198 manns á öllu landinu, 18 ára og eldri, og voru þeir handahófsvaldir úr viðhorfahópi Capacent Gallup. Einnig var hringt í fólk úr völdum póstnúmerum og því boðin þátttaka á neti. Fjöldi svarenda var 5.363 eða 52,6% og þar af voru 947 Reykvíkingar sem svöruðu könnuninni.