Sjöfn Þórðardóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Landssambands sjálfstæðiskvenna. Í tilkynningu segir að með ráðningunni staðfesti forysta Sjálfstæðisflokksins og nýkjörin stjórn Landssambands sjálfstæðiskvenna að staðfesta þá áherslu sem þau vilja leggja á að rétta hlut kvenna í flokksstarfinu með það að markmiði að auka stjórnmálaþátttöku þeirra og áhrif í samfélaginu.
Sjöfn Þórðardóttir hefur sinnt fjölmörgum störfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn, m.a. verið kosningastjóri í sveitarstjórnar- og Alþingiskosningum og gegnt ýmsum trúnaðarstörfum á Seltjarnarnesi og í Suðvesturkjördæmi.
Hún var formaður Félags ungra sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi, hefur verið í stjórn fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna á Seltjarnarnesi, í kjörnefnd í SV-kjördæmi og varaþingmaður. Þá hefur hún sinnt nefndarstörfum fyrir Seltjarnarnesbæ og mennta- og menningarmálaráðuneytið, segir í tilkynningu.
Sjöfn hefur verið sjálfstætt starfandi sem verkefnastjóri, kosningastjóri og almannatengill sl. 16 ár, auk þess að starfa við kennslu og sinna félagsstörfum en hún var formaður Heimilis og skóla, Landssamtaka foreldra um árabil. Hún er 41 árs með B.Ed.-gráðu frá HÍ. Hún er gift Lárusi B. Lárussyni flugstjóra og eiga þau tvö börn.