Algengt er að algjör bati við geðhvarfasýki náist ekki en talið er að yfir 70% veikist aftur af þeim sem hafa náð bata eftir fyrstu meðferð, segir Dagbjörg Sigurðardóttir, sérfræðingur í barna- og unglingageðlækningum á legudeild BUGL.
Fram kom í erindi hennar á árlegri ráðstefnu barna- og unglingadeildar LSH um tilfinningaraskanir barna í dag að greining á geðhvarfasýki væri mjög vandasöm. Sérfræðingar væru ekki á einu máli um hvernig greina skyldi sjúkdóminn en hann er meðal annars talinn vera ofgreindur í Bandaríkjunum og Brasilíu en vangreindur sums staðar annars staðar. Þá væri erfitt að áætla algengi sjúkdómsins og ylli mismunandi notkun á greiningarskilmerkjum milli landa ósamræmi í algengitölum.
Erindi Dagbjargar var um þunglyndi og gerðhvarfasýki hjá unglingum en hún tiltók meðal annars greiningarskilmerki þunglyndis. Sagði hún að fjögur eða fleiri einkenni yrðu að hafa verið til staðar í að minnsta kosti tvær vikur, þar af að minnsta kosti tvö af fyrstu þremur einkennunum, til að uppfylla greiningu.
Dæmi um einkennin væru depurð, áhuga- eða ánægjuleysi, breytingar á líkamsþyngd eða matarlyst, þreyta eða orkuleysi, breytingar á svefni, óróleiki, óraunhæf sektarkennd, minni einbeiting og endurteknar sjálfsvígs- eða dauðahugsanir.
Þá nefndi hún jafnframt að ekki væri langt síðan farið var að greina börn og unglinga með þunglyndi. Sagði hún að á ráðstefnu lækna í Svíþjóð árið 1970 hefði fyrst verið rætt um það, en áður töldu margir að þau hefðu einfaldlega ekki þroska til þess að greinast með þunglyndi.
Fram kom í erindi Dagbjargar að um 50% af þunglyndum börnum og unglingum væru með eina eða fleiri aukagreiningu. „Það eru töluvert af fylgiröskunum en algengast er að um kvíða- og hegðunarraskanir sé að ræða,“ sagði hún. Þá væru félagslegir erfiðleikar í tengslum við vini, og oft fjölskyldu, til staðar meðan á þunglyndinu stæði.
Hún nefndi að tíðni þunglyndis hefði aukist í Bandaríkjunum undanfarin ár og að tvöfalt fleiri stelpur á unglingsaldri en strákar þar í landi glímdu við þunglyndi.
Því næst fjallaði Dagbjörg um geðhvarfasýki. Í stuttu máli sagt er geðhvarfasýki sjúkdómur sem lýsir sig á þann hátt að sjúklingurinn upplifir djúpt þunglyndi og oflæti, maníu, til skiptis. Er geðhvarfasýki sveiflusjúkdómur þar sem sjúklingurinn hefur enga stjórn á sveiflunum.
„Við greiningu á geðhvarfasýki er mikilvægt að fá upplýsingar frá sem flestum,“ sagði Dagbjörg. Einstaklingurinn sjálfur hefði kannski ekki sjálfur innsýn í sjúkdóminn og því væri mikilvægt að hann fengi upplýsingar frá sem flestum, svo sem fjölskyldu, skóla- eða vinnufélögum. Þá væru einkennin ekki staðbundin og yllu hömlun í daglegu lífi. Þau væru sveiflukennd og stæðu yfir í að minnsta kosti viku fyrir oflætið og tveimur vikum fyrir þunglyndið.
Eins og áður var nefnt eru oflæti og þunglyndi helstu einkenni geðhvarfasýki en mjög mismunandi er milli einstaklinga hvernig þau koma fram. Þá varir tímabil oflætisins mun styttra en tímabil depurðarinnar, eða þunglyndisins.
Fram kom í erindi Dagbjargar að einkenni oflætis væru meðal annars mikilmennskuhugmyndir en hún nefndi dæmi um unglinga í skólum sem mikið væri kvartað yfir. Þeir teldu sig vita betur en kennarinn og reyndu að leiðrétta hann sí og æ. Þá væri aukið sjálfsálit annað einkenni, þegar einstaklingurinn ætlaði sér að sigra heiminn. Minni svefnþörf, mikill orðaflaumur, aukið hugmyndaflug, einbeitingaskortur og áhættuhegðun væru dæmi um önnur einkenni, að því er fram kom í máli hennar.
„Þá hamla einkennin starfsgetu, félagslegum samskiptum og sjúkrahússinnlagnar er oft þörf vegna hættu á sjálfsskaða, eða vegna ranhugmynda,“ sagði hún.
Dagbjörg benti einnig á mikilvægi þess að líta til fjölskyldusögunnar en sjúkdómar liggja oft í ættum. Hún nefndi jafnframt að geðhvarfasýki væri langvinnur og hamlandi sjúkdómur og að algengt væri að alger bati næðist ekki, en talið er að yfir 70% veikist aftur af þeim sem hafa náð bata eftir fyrstu meðferð.
„Lyfjameðferðin byggist á rannsóknum á fullorðnum því unglingar og börn svara ekki eins vel,“ sagði Dagbjörg. Oft þyrfti fleiri en eitt lyf til og þá væri brýnt að velja lyfin með tilliti til aukaverkana. Mælti hún með því að meðferð yrði haldið áfram í að minnsta kosti eitt til tvö ár eftir að jafnvægi hefði náðst í lífi sjúklingsins.