„Ég hef slegist við veikindi og trekk í trekk verið á mörkum lífs og dauða. Ég hef unnið á takmarkaðri orku, stundum minni en meiri og kannski hefur fyrirgangurinn á köflum verið of mikill. Í dag hef ég sæmilega starfsorku, annars væri ég ekki að hleypa þessari tónleikaröð af stokkunum,“ segir Jónas Ingimundarson píanóleikari sem fagnar því um þessar mundir að fimmtíu ár eru síðan hann kom fyrst fram opinberlega.
Af þessu tilefni stendur hann fyrir tónleikaröðinni Við slaghörpuna í hálfa öld í Salnum í Kópavogi þar sem nokkrir af fremstu söngvurum og leikurum landsins koma fram með honum.
Jónas greindist með ólæknandi eitlakrabbamein fyrir hálfum öðrum áratug og hefur glíman tekið sinn toll. „Ég er líkamlega laskaður. Ég neita því ekki. Það er dagamunur á mér, ég er orkulítill, pestsækinn og stundum styggur og fer fyrir vikið ekki mikið út á meðal fólks. En ég er á lífi. Fyrir það er ég Guði þakklátur og forsjóninni.“
Nánar er rætt við Jónas í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.