Reykjavík hækkar sorphirðugjöld

Reykjavíkurborg hefur hækkað sorphirðugjöld sín.
Reykjavíkurborg hefur hækkað sorphirðugjöld sín. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Reykjavíkurborg hefur hækkað sorphirðugjöld sín en samkvæmt nýrri gjaldskrá fyrir meðhöndlun úrgangs í borginni, sem birt var í Stjórnartíðindum í gær, mun gjald fyrir venjulega gráa tunnu sem sótt er á tíu daga fresti hækka um tæp 10%, úr 18.600 krónum í 20.400 krónur.

Fram kemur í frétt á vefsíðu Samtaka atvinnulífsins að sé tunnan í meira en fimmtán metra fjarlægð frá sorphirðubíl hækki gjaldið úr 23.100 krónum í 25.400 krónur, sem svari til tíu prósenta hækkunar.

Í fréttinni segir að þessar gjaldskrárhækkanir hafi verið ákveðnar í stjórn Sorpu hinn 23. september síðastliðinn og að til grundvallar hafi verið lagðar forsendur um verð- og launaþróun sem gefnar voru í þjóðhagsspá Hagstofunnar í júlí 2013. Gengið hefði verið út frá þeim forsendum að á árinu 2014 myndu laun hækka um 5,6%, verðbólga vera 3,4% og gengisvísitala krónunnar verða 240 í árslok. 

„Ekki þarf að fjölyrða um það að nú hafa verið lagðar allt aðrar forsendur um launabreytingar og verðbólgu á árinu og gengi krónunnar er meira en 10% sterkara en þá var gengið út frá,“ segir í frétt SA.

Þá segir í fréttinni að athygli veki að gjald fyrir bláar tunnur hækki ekki. Þar sé borgin í samkeppni við einkafyrirtæki sem einnig bjóði fram þjónustu við heimilin og sæki til þeirra flokkaðan úrgang.

Telja Samtök atvinnulífsins mikilvægt að Reykjavíkurborg endurskoði hækkun sorphirðugjaldanna sem fyrst. Hækkunin hafi verið mun meiri en gefið var til kynna af forsvarsmönnum borgarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert