Nauðsynlegt að rjúfa vítahring verðbólgunnar

Frá fundinum í Stjórnarráðinu í hádeginu.
Frá fundinum í Stjórnarráðinu í hádeginu. mbl.is/Þórður

Forsætisráðherra og fjármálaráðherra funduðu með fulltrúum nokkurra stéttar- og hagsmunafélaga í dag þar sem samþykkt var að grípa til aðgerða til að stuðla að því að forsendur kjarasamninga um verðstöðugleika náist.

Samkomulag náðist um að koma á fót átaki til að kynna nauðsyn verðstöðugleika.

Þá verður því beint til nýrrar fastanefndar um samskipti samtaka aðila á vinnumarkaði, sveitarfélaga og ríkisins að skipuleggja samhæfðar aðgerðir til að fylgjast með og hafa áhrif á verðlagsbreytingar.

Loks skal fastanefndin jafnframt skoða leiðir til að sporna gegn sjálfvirkri vísitöluhækkun ýmissa samninga á markaði, svo sem þjónustusamninga fyrirtækja, leigusamninga og verksamninga.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

Leggur fram frumvarp um lækkun gjalda ríkissjóðs

Fram kemur að fjármálaráðherra hafi á ríkisstjórnarfundi í dag gert grein fyrir því að í kjölfar samþykktar kjarasamninga muni frumvarp verða lagt fram sem feli í sér efndir á gefnu heiti um lækkun gjalda ríkissjóðs. Þetta verði gert með lækkun á eldsneytisgjöldum og eftir atvikum öðrum gjöldum. Þá hafi fjármálaráðherra beint því til ráðherra í ríkisstjórn að þeir hafi eftirlit með því að stofnanir sem undir þá heyra, eða aðrir aðilar sem veita þjónustu sem áhrif hefur á vísitölu neysluverðs, skuli gæta ítrasta aðhalds og styðja við verðlagsforsendur kjarasamninga. 

Forsætisráðherra og fjármálaráðherra funduðu síðan í dag með fulltrúum Alþýðusambands Íslands, Bandalagi háskólamanna, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Bændasamtök Íslands, Kennarasamband Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök atvinnulífsins. Fram kemur að samstaða hafi ríkt á fundinum um mikilvægi þess að ná niður verðbólgu til hagsbóta fyrir launafólk. 

Fyrirtæki hvött til að styðja við verðlagsforsendur nýrra kjarasamninga

„Í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði, sem undirritaðir voru í desember sl., var lögð áhersla á að skapa forsendur fyrir auknum kaupmætti launatekna á grunni aðferðafræði sem sannað hefur gildi sitt á öðrum Norðurlöndum á undanförnum áratugum. Hin þráláta verðbólga sem ríkt hefur á Íslandi minnkar samkeppni, hækkar vexti, slævir verðskyn og heldur niðri lífskjörum.

Með nýjum kjarasamningi vildu samningsaðilar ná víðtækri samstöðu um að rjúfa þennan vítahring. Ríkisstjórnin studdi þessa viðleitni samningsaðila með yfirlýsingum frá 15. nóvember og 21. desember sl. Kannanir í aðdraganda kjarasamninga sýndu að mikill meirihluti Íslendinga var hlynntur því að gerð yrði þjóðarsátt á vinnumarkaði þar sem lögð yrði meiri áhersla á stöðugt verðlag og stöðugt gengi, en í stað þess minni áhersla á launahækkanir.

Í upphafi ársins hafa borist fréttir af nokkrum hækkunum á verði vöru og þjónustu sem gætu stefnt forsendum kjarasamninga í voða. Ríkisstjórnin hvetur fyrirtæki til að styðja við verðlagsforsendur nýgerðra kjarasamninga,“ segir í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert