„Klukkan var um tvö þegar við vöknuðum við hróp á neðri hæð,“ segir íbúi fjölbýlishúss í Hraunbæ þar sem eldur kom upp í nótt. Íbúinn, kona, býr ásamt dóttur sinni í íbúðinni fyrir ofan þá þar sem eldurinn kom upp. „Hrópin voru í unglingsstúlku sem var að kalla á móður sína,“ segir hún.
Eins og greint var frá á mbl.is snemma í morgun sluppu kona og barnabarn hennar út úr brennandi íbúð í Hraunbæ á þriðja tímanum í nótt. Varðstjóri hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins segir að þær hafi verið stálheppnar að sleppa út úr íbúðinni. Konan í íbúðinni fyrir ofan segir að dóttir konunnar búi einnig í íbúðinni en hún viti ekki hvort hún hafi verið að koma heim og þá orðið eldsins vör eða hvort hún var einnig í íbúðinni. Alla vega heyrði hún hana hrópa á móður sína.
Þegar hún vaknaði fór konan ásamt ungri dóttur sinni að útidyrahurðinni. „Hún var ekki heit en þegar ég opnaði hana sá ég ekkert og gangurinn var á kafi í svörtum og þykkum reyk. Við klæddum okkur, hringdum á meðan í Neyðarlínuna og ákváðum að haldast við inni á baði.“
Hún segir að það hafi ekki verið nokkur leið að fara í gegnum reykinn frammi á gangi og því hafi þær staðið í útifötum við glugga baðherbergisins. Eftir skamma stund var reykurinn farinn að læðast inn til þeirra. „Þetta var ekkert skemmtilegt, en ég vissi að slökkviliðið var á leiðinni og vissi að það væri hægt að setja körfubíl við gluggann hjá okkur.“
Mæðgurnar voru við gluggann í um það bil hálftíma, á meðan eldurinn logaði undir þeim, en þá bönkuðu slökkviliðsmenn upp á. „Þá voru þeir búnir að slökkva eldinn niðri og mun minna var af reyk á ganginum þannig að við gátum gengið niður og út í strætisvagn sem komið var fyrir við húsið. Ég kveið mikið fyrir því að þurfa að skríða eftir reykfylltum ganginum og var því mjög ánægð að það skyldi ekki þurfa.“
Hún segir að á sama tíma hafi kona sem býr í íbúðinni við hlið hennar yfirgefið sína íbúð. „Hún hafði farið út á svalir með litla barnið sitt. Annar íbúi á hæðinni hafði hins vegar áður farið niður með barn sitt, en hundurinn treysti sér ekki til að fara í gegnum reykinn og sneri við í íbúðina.“
Flestir íbúar fengu að snúa aftur til síns heima um klukkan hálffimm í morgun. „Þeir voru ótrúlega snöggir að þessu öllu, og þá var ekkert ósvipað loft í húsinu og er núna,“ segir konan en mbl.is ræddi við hana upp úr klukkan tíu í morgun.
Sót liggur yfir öllu í íbúð konunnar og væntanlega öllum íbúðum fjölbýlishússins. Mikil brunalykt er í íbúðinni og megn á gangi hússins. Auðséð er hvar eldurinn kviknaði en hurð á annarri hæð er mikið brunnin og sést að eldtungur hafa farið fram á gang, þar sem reykskynjari bráðnaði.
Konan sem komst út úr brennandi íbúðinni, dóttir hennar og barnabarn voru útskrifaðar af Landspítalanum í morgun. Þær voru allar komnar út úr íbúðinni þegar slökkviliðið kom á vettvang. Slökkviliðið segir að eldurinn hafi kviknað út frá logandi kerti. Íbúðin er afar illa farin eftir eldsvoðann.
Frétt mbl.is: Stálheppnar að sleppa út