Ýmsar breytingar voru gerðar á reglum um sjúkratryggingar um áramótin og virðast margar þeirra hafa komið flatt upp á bæði fagstéttir og hagsmunaaðila. Meðal þeirra breytinga sem um ræðir er hækkun komugjalda hjá heilsugæslunni um 15-20%, aukin greiðsluþátttaka sjúklinga í kostnaði vegna sjúkraþjálfunar og breyttar reglur varðandi læknisbeiðnir fyrir sjúkraþjálfun. Þá voru einnig gerðar breytingar á reglugerð um styrki vegna hjálpartækja og greiðsluþátttaka sjúklinga vegna næringarefna, sem gefin eru um slöngu, aukin.
Sjúkraþjálfarar hafa gagnrýnt aukna greiðsluþátttöku sjúklinga vegna sjúkraþjálfunar, sem þeir óttast að muni koma verst niður á þeim hópi sem vinnur erfiðisvinnu og þarf á sjúkraþjálfun að halda til að halda sér vinnufærum.
Þeir benda m.a. á að oft sé um láglaunastörf að ræða og því komi allar hækkanir illa niður á þessum hópi. Sjúkraþjálfarar hafa einnig verið afar ósáttir með nýja reglugerð um þátttöku Sjúkratrygginga í kostnaði vegna þjálfunar en þar hefur greiðsluþátttaka verið skilyrt beiðni frá lækni.
Fyrir breytinguna átti fólk kost á því að sækja allt að tíu tíma hjá sjúkraþjálfara án skriflegrar beiðni frá lækni og árin 2012 og 2013 nýttu 12.000 manns sér þá reglu, hvort ár. Sjúkraþjálfarar segja að breytingin muni hafa í för með sér óhagræði og aukinn kostnað fyrir sjúklinga, í formi komugjalda á heilsugæsluna og gjalds fyrir beiðnina, auk þess sem álag muni aukast á heilsugæslunni og kostnaður ríkisins aukast vegna aukinnar aðsóknar.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.