Öryggi hert á Litla-Hrauni

Bætt verður úr öryggismálum á Litla-Hrauni.
Bætt verður úr öryggismálum á Litla-Hrauni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Nú standa yfir töluverðar framkvæmdir við Litla-Hraun en stjórnvöld hafa á síðustu þremur árum veitt 150 milljónum króna í það verkefni að auka öryggi í fangelsinu, að sögn Páls Winkel fangelsismálastjóra.

Brátt munu nýjar mannheldar öryggisgirðingar rísa, nýtt móttökuhús verður tekið í notkun á næstu dögum og þá verður sett upp nýtt tölvukerfi sem stýrir eftirlitsmyndavélunum. Markmiðið sé að draga úr streymi fíkniefna í fangelsinu og tryggja eins og vænt er að fangar geti ekki strokið.

Í samtali við mbl.is segir Páll það hafa verið orðið tímabært að taka á öryggismálum í fangelsum landsins. „Við erum þakklát innanríkisráðherra, bæði núverandi og fyrrverandi, fyrir að sýna þessu máli svo mikinn skilning og forgangsraða með þessum hætti.“

Auk fjárveitinganna til öryggismála var samþykkt í fjárlögum fyrir þetta ár að veita milljarði í byggingu hins nýja fangelsis á Hólmsheiði. „Með þessu tvennu, bættu öryggi á Litla-Hrauni og nýju, öruggu fangelsi á Hólmsheiði, sjáum við fram á býsna bjarta tíma,” segir Páll.

Mannheldar girðingar

Hann segir að í móttökuhúsinu, sem tekið verður í notkun á allra næstu dögum, muni allur búnaður sem fer í gegnum fangelsið verða skannaður. „Auk þess sem aðbúnaður fyrir fíkniefnaleitarhund verður settur upp og málmleitartæki komið fyrir.”

Þá segir hann að verið sé að steypa fyrir nýju girðingunum. Sú girðing sem er nú við fangelsið þyki ekki nægilega góð. „Girðingarnar eiga að vera mannheldar með gaddavír ofan á. Þær verða þannig úr garði gerðar að nánast ómögulegt sé að klífa þær,“ segir hann. Þær verði með þéttum möskvum svo að ómögulegt verði að koma fingrum þar í gegn. „Menn munu í það minnsta slasa sig við að reyna að klífa þær.“

Margir hafa bent á að tölvukerfið sem stýrir eftirlitsmyndavélunum sé gamalt og úr sér gengið. Páll segir að til standi að gera bragarbót á því. „Það hafa verið gríðarlegar tækniframfarir þannig að einn möguleiki er sá að það verði settur upp skanni, sem nær yfir allt svæðið, og ef einhver fer inn á svæðið á vitlausum tíma mun skanninn sjálfkrafa gera okkur viðvart,” útskýrir hann.

Gengur í sveiflum

Aðspurður um fíkniefnaneyslu innan fangelsa landsins segir Páll að neyslan gangi í sveiflum. „Það virðist vera ákveðnar tískubylgjur í þessu. Í dag eru menn mikið að smygla inn það sem kallað hefur verið læknadóp. Það er lyktarlaust og er erfiðara að finna það.

Við erum sífellt að finna fíkniefni. Núna síðast í vikunni var opnaður íþróttaskór í fangelsinu í Kópavogi og þar voru sjötíu töflur. Menn eru byrjaðir að sauma þetta inn í sóla,” segir hann.

Páll Winkel fangelsismálastjóri.
Páll Winkel fangelsismálastjóri.
Girðingin á Litla-Hrauni þykir ekki nógu góð.
Girðingin á Litla-Hrauni þykir ekki nógu góð. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert