Sigríði Theódóru Pétursdóttur var boðið starfsnám hjá Airbus í Frakklandi. Hún er líklega eini Íslendingurinn sem hefur starfað við nýjustu flugvél fyrirtækisins: A350 XWB en vélin er helst í samkeppni við hinar bandarísku Boeing 787 og 777X. Flugrisinn Airbus er dótturfyrirtæki Airbus Group sem þar til um áramótin síðustu hét EADS. Airbus sér um framleiðslu farþega- og einkaflugvéla.
Sigga Dóra, eins og hún er jafnan kölluð, hélt til Frakklands haustið 2012 þar sem hún hóf nám í markaðslegri stjórnun og samskiptum við Toulouse Business School. Til þess að útskrifast þurfti hún einnig að ljúka sex mánaða starfsnámi og fékk inni hjá Airbus. Fyrirtækið er með höfuðstöðvar sínar í Toulouse en borgina mætti kalla höfuðborg flugsins í Evrópu. Daglega fékkst hún við krefjandi verkefni líkt og aðrir fastráðnir starfsmenn.
„Áður en ég fór út var ég búin að ákveða að ég ætlaði mér að fá starfsnám hjá Airbus en það var hægara sagt en gert,“ segir Sigga Dóra í samtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins. Eftir langt og strangt umsóknarferli var umsókn hennar hafnað. „Gott bakland og sterkar fyrirmyndir gerði það hins vegar að verkum að ég vissi að ég gæti komist þar að og gafst því ekki upp. Áður en ég vissi af var ég komin með tvö tilboð um starfsnám. Þarna var ég komin í þá stöðu að velja á milli og á endanum fékk ég draumastarfið.“
Sigga Dóra hafði lengi haft áhuga á flugvélum þegar hún fór til Frakklands. „Ég held að þetta hafi verið innprentað í mig snemma, áhugi minn á flugvélum og flugi. Mér hefur líka alltaf fundist flugvélar vera mikið meistaraverk og það hvernig flugið sameinar heiminn og hefur áhrif á allt daglegt líf. Eftir náin kynni mín af flugheiminum eru samræður við mig eflaust orðnar nokkuð einhæfar, eins og vinkonur mínar hafa haft á orði.“ segir Sigga Dóra og hlær. „Þær tilkynna mér að þær hafi ekki áhuga á þessu þegar ég byrja að tala um flugvélar. En merkilegt nokk, þá hef ég náð að smita ansi marga af þessari bakteríu. Nú eru margir í kringum mig farnir að tala um Airbus, sem er frábært.“
Airbus er mikið karlaveldi en fyrirtækið sækist eftir því um þessar mundir að fá fleiri konur til liðs við sig. „Karlar eru í miklum meirihluta og tel ég að hlutfallið sé eitthvað um 75-80% á móti konum. Að vísu voru nokkrar konur í teyminu mínu en ég var langyngst alltaf á öllum fundum. Ég fann hins vegar ekki fyrir því að vera í minnihluta þarna því yfirmaður minn treysti mér fyrir öllu. Hann gaf mér tækifæri til að takast á við krefjandi verkefni og ég mætti á fundi sem staðgengill hans. Á fundum var ég oft með ýmsum goðsögnum úr flugbransanum og þaulreyndu fólki.“ Hann hefur hent þér í djúpu laugina? „Já, það má segja það. Hann hvatti mig snemma til að láta í ljós skoðun mína og koma með mínar hugmyndir. Ég svaraði að ég væri nú bara nemi en hann sagðist ekki vilja líta á mig sem slíkan. Hann sagði að ég væri ein af hópnum og hann ætlaðist til þess sama af mér og hinum. Ég var mjög ánægð með þetta því ég öðlaðist mikla reynslu á sviði flugs á þessum tíma sem er mér dýrmæt,“ sem er nýkomin heim eftir Airbus-ævintýrið.
Nánar er rætt við Siggu Dóru í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.