„Fjötrum“ beitt í öryggisskyni

Sólvangur í Hafnarfirði.
Sólvangur í Hafnarfirði.

Árni Sverrisson, forstjóri hjúkrunarheimilisins Sólvangs, segir í samtali við mbl.is að heimilisfólk sé einungis fjötrað til að tryggja öryggi þess sjálfs. Vefurinn gaflari.is segir frá að hjúkrunarsjúklingar séu í meiri mæli bundnir niður á hjúkrunarheimilinu en áður. Forsvarsmenn annarra hjúkrunarheimila sem mbl.is ræddi við segja starfsfólk sitt einnig beita þessari aðferð, af sömu ástæðu.

„Þetta orð, fjötrar, það lýsir að okkar mati ekki því sem fer fram. Þetta er fyrst og fremst gert til að tryggja öryggi heimilisfólksins,“ segir Árni. „Það gæti hvarflað að sumum að þetta væri til að auðvelda starfsfólki vinnu sína. Þetta er einungis gert í öryggisskyni.“ Fjötrum sem þessum segir Árni að sé aldrei beitt nema í samráði við aðstandendur. 

Árni segir að afleiðingar þess að fjötra fólk ekki niður gætu verið skelfilegar. „Það myndi hafa þær afleiðingar að þetta fólk myndi detta og slasa sig, beinbrotna eða þaðan af verra. Það er ekki heppilegt fyrir aldraðan einstakling að lenda í slíku.“

Hann segir ýmsar aðrar lausnir notaðar til að koma í veg fyrir að fólk fari sjálfu sér að voða. „Við notum svokallaðar rápmottur, þær gefa starfsfólki merki ef viðkomandi fer fram úr rúmi og stígur á þær.“

Fólk veikara á hjúkrunarheimilum en áður

Árni segir það færast í vöxt að grípa þurfi til þess ráðs að koma í veg fyrir að fólk geti staðið upp úr sæti sínu eða rúmi. „Fólkið sem þarf að festa í sæti eða rúmi er í langflestum tilvikum í þannig ástandi að það ber ekki skynbragð á aðstæður og umhverfi til að geta verndað sig sjálft og ekki hægt að tala um fyrir því.“

„Það má leiða að því líkur að fólk sem kemur á hjúkrunarheimili er alltaf veikara og veikara, það er staðreynd. Þegar ég kom hingað 2006 var meðallegutími á hjúkrunarheimili þrjú ár, nú er hann rétt rúmlega tvö,“ segir Árni.

Í frétt sem birtist í Morgunblaðinu í lok síðasta árs kom fram að 90 af 200 heimilismönnum hjúkrunarheimilisins Grundar hefðu látist á einu ári, sem bendir til að dvöl hjúkrunarsjúklinga sé af sambærilegri lengd á fleiri hjúkrunarheimilum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka